[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Samtals höfðu 740 fyrrverandi starfsmenn Wow air sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun (VMST) frá 28. mars þegar félagið fór í gjaldþrot og fram í byrjun seinustu viku eða 8. apríl. Þetta kemur fram á nýbirtu yfirliti Vinnumálastofnunar um ástandið á vinnumarkaði. Af þessum 740 einstaklingum búa 610 á höfuðborgarsvæðinu, 108 á Suðurnesjum og 22 á öðrum svæðum.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Samtals höfðu 740 fyrrverandi starfsmenn Wow air sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun (VMST) frá 28. mars þegar félagið fór í gjaldþrot og fram í byrjun seinustu viku eða 8. apríl. Þetta kemur fram á nýbirtu yfirliti Vinnumálastofnunar um ástandið á vinnumarkaði. Af þessum 740 einstaklingum búa 610 á höfuðborgarsvæðinu, 108 á Suðurnesjum og 22 á öðrum svæðum.

„Það sem hins vegar hefur gerst er að nokkuð hefur verið um umsóknir fólks frá öðrum fyrirtækjum frá því Wow air fór í gjaldþrot. Í heildina hefur 1.441 umsókn um atvinnuleysisbætur borist Vinnumálastofnun frá 28. mars sl. Af þeim eru 342 frá erlendum ríkisborgurum og 1.099 frá Íslendingum,“ segir í mánaðarskýrslu VMST.

Spáð er að atvinnuleysið geti farið í 3,6% í aprílmánuði

Skráð atvinnuleysi í mars mældist 3,2%. Áhrifa WOW air gætir þó aðeins að litlu leyti í þeirri tölu þar sem reksturinn stöðvaðist undir lok mánaðarins. Fjölgun nýskráninga á atvinnuleysisskrá mun hins vegar sýna sig með afgerandi hætti í apríltölunum og gerir Vinnumálastofnun nú ráð fyrir að skráð atvinnuleysi muni aukast í apríl og verða á bilinu 3,3- 3,6%. Þessi aukning er þvert á venjuna á þessum árstíma, því atvinnuleysi hefur nánast alltaf minnkað milli mars og apríl síðustu 30 ár, með örfáum undantekningum þegar kreppt hefur að í íslensku efnahagslífi, að því er fram kemur í skýrslu VMST.

Aukningin stafar einkum af gjaldþroti WOW air og samdráttar af þeim sökum í tengdum atvinnugreinum, en að sögn Karls Sigurðssonar, sérfræðings á VMST, hafa fleiri einstaklingar komið inn á atvinnuleysisskrá að undanförnu en tengjast beint WOW air vegna uppsagna sem átt hafa sér stað á síðustu mánuðum, m.a. í tengslum við flugrekstur á Keflavíkurflugvelli og hjá byggingarfyrirtækjum, sem virðast hafa ákveðið að draga saman seglin á seinustu mánuðum vegna óvissu um þróunina á næstunni. Karl telur þó að nýgerðir kjarasamningar hafi breytt þessu til betri vegar. ,,Ég held að menn séu ekki alveg eins varfærnir lengur og sjái alveg þolanlegt sumar framundan í byggingariðnaði og fleiri greinum en vissulega eru ýmsar vísbendingar m.a. um að einkaneysla fari minnkandi og menn halda að sér höndum í íbúðakaupum, sem veldur því að það er aðeins að hægja á á flestum sviðum,“ segir Karl.

40-50% fjölgun frá mars 2018

Í seinasta mánuði voru 1.659 fleiri á atvinnuleysisskrá en í mars í fyrra. „Mest fjölgaði atvinnulausum í flutningastarfsemi sem skýrist að mestu af gjaldþroti WOW air. Einnig hefur atvinnulausum fjölgað talsvert milli ára í ýmsum þjónustugreinum, einkum tengdum ferðaþjónustu og raunar einnig í verslunarstarfsemi og byggingariðnaði.

Atvinnulausum hefur fjölgað um 40-50% í flestum starfsstéttum frá mars 2018 til mars 2019, mest meðal véla- og vélgæslufólks um nálægt 60%. Minnst var fjölgun atvinnulausra meðal stjórnenda, sérfræðinga og sérmenntaðs starfsfólks þar sem aukningin var á bilinu 23-33%,“ segir í skýrslu VMST.

Aðspurður segir Karl að Vinnumálastofnun sé ekki komin með skýra mynd af því hvernig fyrrverandi starfsfólki WOW air gengur að fá störf. Margir þeirra eru með háskólamenntun en Karl segir frekar þröngt um á starfamarkaði fyrir háskólamenntaða um þessar mundir. ,,Þeir sem eru með menntun í heilbrigðisgreinum standa ágætlega að vígi og þar standa störf til boða,“ segir hann. Flestir séu hins vegar sérhæfðir í störfum sem tengjast fluginu og óvíst sé hvernig þeim hefur gengið að fá vinnu og hins vegar koma einnig margir úr störfum sem krefjast ekki mikillar menntunar, s.s. á Keflavíkurflugvelli, þar sem er oft um útlendinga að ræða. Alls voru 2.315 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok mars eða um 33% allra atvinnulausra. Þessi fjöldi samsvarar um 6,6% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara.