Magnús Georg Siguroddsson fæddist í Reykjavík 1. desember 1941. Hann lést 9. apríl, 2019 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Fanney Long Einarsdóttir frá Seyðisfirði, f. 4.7. 1919, d. 13.11. 2002, og Siguroddur Magnússon, f. í Reykjavík 27.8. 1918, d. 29.10. 2003. Systkini Magnúsar eru Einar Long Siguroddsson, f. 2.11. 1944, giftur Sólveigu Helgu Jónasdóttur, f. 12.4. 1945, Pétur Rúnar Siguroddsson, f. 23.10. 1947, giftur Guðnýju Margréti Magnúsdóttur, f. 22.2. 1948, Sólrún Ólína Siguroddsdóttir, f. 6. september 1953, og Bogi Þór Siguroddsson, f. 19.11. 1959, giftur Lindu Björk Ólafsdóttur, f. 9.4. 1966.
Magnús giftist 9. október 1965 Guðrúnu R. Þorvaldsdóttur, f. 1. desember 1941. Foreldrar hennar voru Þorvaldur Þorsteinsson, f. 6. 12. 1917, d. 22.1. 1998, og Guðrún Tómasdóttir, f. 10.10. 1918, d. 25.6. 2000.
Magnús og Guðrún eignuðust þrjár dætur. Þær eru: 1) Guðrún Anna Magnúsdóttir, f. 4.3. 1962, fyrrv. eiginmaður Stefán Árnason, börn þeirra eru: a) Ólafur Karl Stefánsson, f. 27.7. 1988, b) Anna Laufey Stefánsdóttir, f. 13.3. 1992. 2) Fanney Magnúsdóttir, f. 3.6. 1966, fyrrv. eiginmaður Hólmar Ingi Guðmundsson, þau áttu tvö börn. Þau eru: a) Guðrún Rósa Hólmarsdóttir, f. 26.9. 1984, sambýlismaður hennar er Gunnar Ingi Widnes Friðriksson, dætur þeirra eru Hjördís Lóa Widnes Gunnarsdóttir og Lilja Snædís Widnes Gunnarsdóttir, en fyrir átti hún Stefaníu Dís Bragadóttur. b) Bjarni Magnús Hólmarsson, f. 28.3. 1989. 3) Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir, f. 27.7. 1974, gift Magnúsi Loga Magnússyni, f. 4.6. 1971. Þau eiga eina dóttur, Sigrúnu Magnúsdóttur, f. 21.11. 2019.
Eftir gagnfræðapróf lærði Magnús rafvirkjun og útskrifaðist sem rafvirki 1962 og í kjölfarið fór hann til Danmerkur og nam rafmagnstæknifræði í Odense Teknikum og útskrifaðist árið 1967. Hann fékk réttindi bæði sem rafvirkjameistari og löggildur raflagnahönnuður. Eftir útskrift flutti hann heim og hóf störf sem rafmagnstæknifræðingur hjá Landsvirkjun á árunum 1967-1971, þá starfaði hann sem fulltrúi Brunamálastjóra á árunum 1971-1973, en árið 1973 stofnaði hann teiknistofuna Ljóstækni og vann við ráðgjöf og hönnun raflagnateikninga til ársins 2010. Hann starfaði einnig um skeið sem kennari við Iðnskólann í Reykjavík á árunum 1991-2009 og sinnti hlutastarfi hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen á árunum 2000-2003.
Útför Magnúsar Georgs fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 16. apríl 2019, klukkan 13.


Pabbi fæddist í Reykjavík og bjó á Nönnugötu 7 sem barn og unglingur. Hann var alltaf svolítill prakkari og af sumum kallaður aðal prakkarinn í austurbænum. Á þeim tíma sem hann var barn var stundum rígur á milli austur- og vesturbæjar og pabbi tók þátt í því með tilheyrandi skylmingum, vatnsbyssum og öðrum prakkarastrikum. Hann var alltaf bóngóður og var á unga aldri að aðstoða afa sinn og ömmu töluvert en þau bjuggu rétt hjá á Urðarstíg 10. Hann var sendur í alls konar erindi fyrir ömmu Pálínu, út í búð og svona. En með afa sínum Magnúsi fór hann oft aftan á hjólinu hans til að aðstoða við að setja niður eða taka upp kartöflur í kartöflugarðinum sem hann var með í Vatnsmýrinni. Mamma hans, Fanney Long Einarsdóttir, var kjólameistari og pabbi hans, Siguroddur Magnússon, var rafvirkjameistari. Foreldrum sínum hjálpaði hann líka óspart við að handlanga og sníða kjóla ef á þurfti að halda.
Hann var elstur í fimm systkina hópi. Einar er næstur honum í aldri, svo Pétur, þá Sólrún og yngstur er Bogi Þór. Þau systkinin hafa alla tíð verið samheldin og samfagnað hvert með öðru og mökum sínum á flestum afmælum svo dæmi sé tekið.
Pabbi giftist mömmu, Guðrúnu R. Þorvaldsóttur, Rúnu sinni,  9. október 1965 og voru þau gift í 53 ár. Þau áttu gott hjónaband,voru alla tíð verið með svipaðar lífsskoðanir, verið kærleiksrík og samrýnd.  Hann lærði rafvirkjun og varð rafvirkjameistari eins og pabbi sinn en fór svo út til Danmerkur með mömmu og elstu dóttur þeirra, Guðrúnu Önnu, til að læra rafmagnstæknifræði í Odense Teknikum. Þar vann mamma á spítalanum í Odense á meðan hann var í námi og á þessu tveggja ára tímabili fæddist Fanney, dóttir þeirra, í miðið. Þau eignuðust góða vini á þessum tíma bæði danska og íslenska og ræktaði hann samband sitt við þessa vini alla tíð.
Þau fluttu heim 1967 og bjuggu þá í 5 ár á Nönnugötunni (fjölskylduhúsinu) en byggðu sér svo fallegt heimili að Melaheiði 13 í Kópavogi og fluttu inn 1973. Ég sjálf kom þá til sögunnar og þau bjuggu á Melaheiðinni til ársins 1996 en þá fluttu þau í Sóltún þar sem hann bjó til dauðadags.
Pabbi var alltaf höfðingi heim að sækja og fannst gaman að samfagna með fólki og halda veislur. Hann og mamma eiga sama afmælisdag og fæddust sama ár og hafa haldið upp á afmæli sín með glæsibrag alla tíð og hafa alltaf haft danskt þema í veitingunum. Segja má að okkur hinum í fjölskyldunni hafi alltaf fundist jólin byrja á þeirra afmælisdegi, þann 1. desember ár hvert. Pabba þótti gaman að flytja ræður og alltaf var hægt að treysta á að hann segði nokkur orð ef hans nánasta fólk fagnaði stórafmæli eða öðrum áföngum eins og brúðkaupi eða útskrift. Pabba þótti ákaflega gaman að syngja þó hann hafi aldrei verið í kór en mikið þótti honum gaman þegar tekið var upp á að syngja í veislum og oft brast hann í söng með okkur hinum upp úr þurru t.d. uppi í bústað og svo söng hann oft fyrir barnabörn og barnabarnabörn. Hann skrifaði líka alltaf bestu afmæliskortin og í flestum þeirra setti hann með gullkornið lifðu í lukku en ekki krukku. Hann var smekkmaður, var mikið fyrir einfalda hönnun og virtist alltaf vita hvað hans fólk vildi í afmælis- og jólagjafir og var flinkur í að koma fólki á óvart í gjöfum, sérstaklega mömmu.
Pabbi var alltaf svo brosmildur og kærleiksríkur og knúsaði fólkið sitt og kyssti í hvert sinn sem við hittumst. Barnabörnin hans lærðu alls konar grín hjá afa sínum eins og presturinn í stólinn sté og splyr og hann var oft með alls konar sprell og fíflaskap með tilheyrandi handa- og fótahreyfingum þegar krakkarnir í lífi hans voru nálægir
Hann spilaði oft og var góður í bridds og spilaði ósjaldan bridds með tengdafjölskyldunni í bústaðnum við Þingvallavatn, en svo var auðvitað alltaf spilaður Lander í öllum jólaboðum í hans fjölskyldu og tók hann alltaf þátt. Hann spilaði líka mjög oft með okkur og börnum og barnabörn spilið Mexican Train í Skorradal.
Pabbi var alltaf liðtækur í alls konar félagsskap, hann hitti vini sína frá námsárunum reglulega, var í Frímúrarareglunni, tók þátt í bæjarpólitíkinni í Kópavogi, sat meðal annars í byggingarnefnd Kópavogs, hann var í mótorhjólaklúbbi og fór reglulega í sund í Sundlauginni í Reykjavík svo eitthvað sé nefnt.
Pabbi var alltaf að vinna eitthvað í höndunum og var mjög handlaginn. Hann byggði sumarbústaðinn í Skorradal hér í Reykjavík í einingum og flutti svo einingarnar upp í Skorradal og fékk fagmenn til að smíða á þær þak. Sumarhúsið var byggt 2003 og vorum við í fjölskyldunni öll þátttakendur í þessu með honum og þótti okkur gaman að því að vinna þetta verkefni saman. Hann var skipulagður og notaði alls konar mát til auðvelda vinnuna.
Pabbi stofnaði teiknistofuna Ljóstækni árið 1973 og hannaði og teiknaði þar raflagnateikningar fyrir fjölmörg hús hér í Reykjavík og á landsbyggðinni. Hann var lengst af með skrifstofu á Skúlagötu 63 í Reykjavík. Hann kenndi einnig í fjölmörg ár í Iðnskólanum í Reykjavík þá aðallega rafmagnsfræði og stærðfræði og þótti góður kennari og ég held hann hafi mjög gaman að því að kenna ungu fólki. Hann hjálpaði líka okkur systrunum og barnabörnum með stærðfræðina ef á þurfti að halda í gegnum skólagöngu okkar og í leiðinni sagði hann manni frá fegurðinni í stærðfræðinni eins og gullinsnið o.fl. Honum fannst mjög gaman að því þegar mér datt í hug að skrúfa í sundur heimilissímann (sem hætt var að nota) til að skoða hvað væri inni í. Hann nýtti tækifærið til að segja mér hvernig svona sími virkaði og hvatti mig til að skrúfa bilað dót í sundur sem hugsanlega væri hægt að lagfæra.
Pabbi var fljótur að setja sig inn í allt sem hann hafði áhuga á og hafði hann mikinn áhuga á tækni. Hann var einn af þeim fyrstu á Íslandi sem tileinkaði sér það að nota teikniforritið Autocad til að teikna raflagnateikningar í stað þess að teikna á teikniborði. Hann átti líka alltaf góða tölvu, prentara og skanna og notaði snjallsíma eins og ekkert væri. Síðustu árin skiptumst við oft á skilaboðum, sendum hvort öðru myndir og vídeó og þótti honum einstaklega gaman af því. Síðasta árið hringdi ég oft í hann vídeósímtal í gegnum facetime því það þótti honum þægilegast og skemmtilegast. Alltaf kvaddi hann með fingurkossi í svoleiðis símtölum.
Pabbi var rosalega sterkur og æðrulaus í sínum veikindum og sagðist aldrei finna neitt til. Hann upplifði sig aldrei sem sjúkling og var afar sjálfstæður fram á síðasta dag. Hann var ákveðinn í að sigrast á þessu og lífsviljinn var mikill en því miður tapaði hann að lokum fyrir vélindakrabbameininu. Hans verður sárt saknað.
Í stuttu máli: Elsku pabbi var skemmtilegur, kærleiksríkur, brosmildur, hrókur alls fagnaðar, einstakur afi, handlaginn, vandvirkur, útsjónarsamur, góður kennari, þrautseigur, æðrulaus, söngmaður, góður dansari, tækniáhugamaður, prakkari, klár, vinalegur við alla, með hjartað á réttum stað, stundum ákveðinn, samfagnaði manni alltaf, ræðumaður, skrifaði skemmtilegustu afmæliskortin, bóngóður, smekkmaður, sundmaður, vespu-ökumaður, réttsýnn og var góður ráðgjafi í hinu og þessu.
Ég sakna hans nú þegar og ætla að halda áfram að senda honum skilaboð þó það verði á annarri bylgulengd.

Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir.