Guðríður Arnardóttir
Guðríður Arnardóttir
Eftir Guðríði Arnardóttur: "Félag framhaldsskólakennara hefur gagnrýnt frumvarpið meðal annars vegna þess að sérhæfing kennara er svo ólík á milli skólastiga."

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um menntun kennara sem meðal annars gerir ráð fyrir einu leyfisbréfi til kennslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Félag framhaldsskólakennara hefur gagnrýnt frumvarpið meðal annars vegna þess að sérhæfing kennara er svo ólík á milli skólastiga. Framhaldsskólakennarar eru fyrst og fremst sérfræðingar í tilteknum bók- og verknámsgreinum að viðbættu námi í uppeldis- og kennslufræðum á meðan leik- og grunnskólakennarar eru sérfræðingar í uppeldis- og kennslufræðum fyrst og fremst.

Nú er auglýst eftir kennara í leikskóla. Um starfið sækir bifvélavirki sem hefur kennt bílgreinar í nokkur ár. Um starfið sækir líka sálfræðingur sem hefur ekki leyfisbréf sem kennari.

Hvern á að ráða?

Starfsréttindi kennara eru lögvernduð. Þeir skulu hafa forgang sem hafa leyfi menntamálaráðherra til kennslu. Þannig mætti ætla að það bæri að ráða bifvélavirkjann til starfsins þótt augljóslega sé menntun sálfræðingsins heppilegri til kennslu í leikskóla.

Í frumvarpinu eru einhvers konar reddingar um það að í þessum tilfellum megi skólastjórar ráða frekar þann sem hefur ekki leyfisbréf til kennslu og þannig ganga fram hjá einstaklingi sem hefur leyfisbréf með þeim rökum að sérhæfing til kennslunnar sé ekki til staðar.

Standist slíkt er löggilding fagmennsku þriggja stétta orðin að engu. Standist þetta geta skólastjórnendur einfaldlega ráðið hvern þann sem þeim sýnist til kennslu óháð því hvort viðkomandi hafi réttindi eða ekki.

Hér er verið að gjaldfella margra ára baráttu kennara fyrir viðurkenningu á fagmennsku sinni. Alla tíð hafa kennarar barist fyrir viðurkenningu á því að kennsla sé sérstök starfsgrein og hver sem er geti ekki gengið inn í slíkt starf. Ekkert frekar en starf sjúkraliða. Kannski finnst einhverjum engin geimvísindi falin í því að passa börn og kenna margföldunartöfluna. Ég er á annarri skoðun, sérhæfing kennara á mismunandi skólastigum er grundvöllurinn fyrir sterku menntakerfi og í þeirri sérhæfingu er fagmennska kennara fólgin.

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara.