[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Slóvenski landsliðsmarkvörðurinn Jan Oblak framlengdi í gær samning sinn við spænska liðið Atlético Madrid sem hann hefur spilað með frá árinu 2014.

*Slóvenski landsliðsmarkvörðurinn Jan Oblak framlengdi í gær samning sinn við spænska liðið Atlético Madrid sem hann hefur spilað með frá árinu 2014. Oblak, sem hefur verið talinn einn af betri knattspyrnumarkvörðum heims, er nú samningsbundinn Atlético til ársins 2023. Hann hefur spilað 203 leiki með liðinu og hefur haldið marki sínu hreinu í 115 þeirra.

*Ítalinn Edoardo Reja var í gær ráðinn nýr þjálfari albanska karlalandsliðsins í knattspyrnu og tekur hann við þjálfun liðsins af landa sínum Christian Panucci , sem var rekinn úr starfi eftir fyrsta leik Albana í undankeppni EM. Fyrsti leikur Albana undir stjórn Reja verður gegn Íslendingum í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í júní. Reja, sem er 73 ára gamall, er reyndur þjálfari sem meðal annars hefur þjálfað ítölsku liðin Napoli, Atalanta og Lazio. Hann hefur ekki stýrt landsliði áður en samningur hans er til eins árs.

* Agnar Smári Jónsson mun ekki spila með Valsmönnum í úrslitakeppninni í Olísdeildinni í handknattleik sem hefst á laugardaginn en Agnar gekkst undir aðgerð vegna brjóskloss í baki á dögunum. Sömu sögu er að segja um Magnús Óla Magnússon, sem meiddist illa á hné á æfingu Valsliðsins fyrir skömmu.