Íslandsmeistarar Kvennalið Stjörnunnar fagnar Íslandsmeistaratitlinum í hópfimleikum í gærkvöld.
Íslandsmeistarar Kvennalið Stjörnunnar fagnar Íslandsmeistaratitlinum í hópfimleikum í gærkvöld. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Stjarnan varð í gærkvöld Íslandsmeistari í kvennaflokki og Gerpla í karlaflokki þegar Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í Ásgarði í Garðabæ.

Stjarnan varð í gærkvöld Íslandsmeistari í kvennaflokki og Gerpla í karlaflokki þegar Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í Ásgarði í Garðabæ.

Stjarnan var með nokkra yfirburði í meistaraflokki kvenna, sigraði í öllum þremur greinunum og fékk samtals 53.925 stig en Garðabæjarliðið varði þar með Íslandsmeistaratitilinn. Stjörnukonur fengu 19.925 stig fyrir gólfæfingar, 17.000 stig fyrir æfingar á dýnu og 17.000 stig fyrir stökk á trampólíni. Gerpla varð í öðru sæti með 50.500 stig (18.700, 15.950 og 15.850) en þriðja liðið sem tók þátt, ÍA frá Akranesi, stóð þeim langt að baki og fékk 29.900 stig.

Í meistaraflokki karla voru aðeins tvö lið, Gerpla og Stjarnan. Gerplustrákarnir voru betri í öllum greinum og fengu 53.000 stig (17.700, 18.200 og 17.100) en Stjarnan fékk 48.950 stig.

Gerpla var með eina liðið í keppni blandaðra liða og fékk því gullið fyrirhafnarlítið með 41.450 stig.

Selfoss sigraði í 1. flokki kvenna og hafði þar betur í jafnri keppni við Gerplu og Stjörnuna. Selfoss fékk 47.450 stig, Gerpla 46.550 og Stjarnan 46.300 stig.

Í 1. flokki karla var Stjarnan með eina liðið og fékk þar 31.350 stig. vs@mbl.is