Það er lítið samráð í að valta yfir þá sem ekki deila sýn meirihlutans

Verslunareigendur við Laugaveginn eru ómyrkir í máli í samtölum við Morgunblaðið í gær um framgöngu Reykjavíkurborgar og telja að varanleg göngugata muni ýta undir flótta þaðan.

Laugavegurinn er eitt helsta kennileiti borgarinnar og þungamiðja borgarlífsins. Lykillinn að aðdráttarafli götunnar hefur verið fjölbreytt starfsemi, rótgrónar verslanir innan um þær nýrri og kaffihús og veitingastaðir af ýmsum toga. Til þess að gatan haldi sessi sínum þarf hún að laða alla að, ferðamenn frá útlöndum og utan af landi og alla borgarbúa, ekki bara íbúa miðbæjarins. Þá má ekki gleyma því að ekki eiga allir jafn auðvelt með að komast leiðar sinnar.

Til þess að miðborgin haldi velli þarf aðgengi að henni að vera gott. Vissulega er hægt að notast við almenningssamgöngur, ganga og hjóla, en staðreyndin er einfaldlega sú að einkabíllinn er sá ferðamáti, sem flestir kjósa, og skipulag miðborgarinnar þarf að taka mið af því. Annars er hætt við því að þrengist að verslun í götunni.

Þeir kaupmenn, sem rætt var við í Morgunblaðinu í gær, telja reyndar að þegar sé farið að þrengja að þeim og raunir þeirra muni aðeins ágerast með fyrirætlunum borgarinnar.

Gilbert Ó. Guðjónsson úrsmiður hefur verið á sama stað á Laugaveginum í 39 ár og í miðbænum í 51 ár. „Að breyta Laugaveginum í göngugötu, ég veit ekki hvar þetta fólk heldur eiginlega að við séum. Við búum á Íslandi, ekki Spáni,“ segir hann og telur að sýn meirihlutans um göngugötur allt árið sé einungis til þess fallin að koma í veg fyrir að Íslendingar sæki miðbæinn heim.

Jón Sigurjónsson gullsmíðameistari hefur rekið verslun við Laugaveg í 48 ár og segir framgöngu borgarinnar með ólíkindum og einkennast af skrípaleik og blekkingum. „Að borgarstjóri skuli ekki hlusta á hátt í 250 undirskriftir rekstrar- og hagsmunaaðila sem leggjast allir gegn þessari lokun er ekkert annað en dónaskapur,“ segir hann.

Vigdís Guðmundsdóttir verslunarmaður hefur búið við Laugaveg í 27 ár og rekið verslun síðan í ágúst: „Íslendingar eru hættir að mæta hingað og að mínu mati hefur Laugavegur nú þegar fjarað út.“

Bára Atladóttir fatahönnuður er meðal þeirra, sem eru að yfirgefa Laugaveginn og ætlar að opna nýja verslun í Mörkinni. Hún segist fá skilaboð frá viðskiptavinum, sem segjast hafa verið hættir að koma á Laugaveginn, en muni mæta í nýju búðina.

Þannig mætti halda áfram að rekja ummæli viðmælenda blaðsins.

Kaupmenn eru ekki einir um að mótmæla fyrirætlunum borgarinnar. Fulltrúar Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, hafa einnig lýst yfir áhyggjum. Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, sagði við mbl.is í febrúar að því hefði verið komið á framfæri við embættismenn borgarinnar „umbúðalaust að okkur lítist ekkert á tillögur um Laugaveg sem göngugötu“ og bætti við: „Það skortir skilning á því að sama hversu greiðfær Laugavegur verður fyrir hjólastóla eða fólk á hækjum þá verður hann lokaður hreyfihömluðum ef þeir geta ekki lagt bíl sínum sem næst áfangastað, hvort heldur er verslun, veitingahúsi eða skemmtistað.“

Morgunblaðið náði tali af nokkrum fulltrúum meirihlutans í gær og leitaði eftir viðbrögðum við gagnrýni kaupmannanna. Ekki var að sjá að þar væri mikill vilji til að bregðast við, viðkvæðið að breytingar mættu alltaf mótstöðu, en áfram yrði unnið í samráði við alla aðila.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, segir í blaðinu dag að verslun og viðskipti aukist með því að fjarlægja bílaumferð og vísar til reynslu borga á borð við New York og London. Þetta eru milljónaborgir sem löngu eru sprungnar og hafa af illri nauðsyn þurft að bregðast við. Vandamál þeirra eru engan veginn sambærileg við Reykjavík og reynsla stórborganna kallar ekki á að grípa til aðgerða, sem beinlínis miðast við að gera bíleigendum lífið óbærilegt og knýja þær í gegn sama hvað það kostar, hvort sem það verður til þess að hrekja verslunareigendur í burtu, eða sjá til þess að hreyfihamlaðir treysti sér ekki í bæinn.

Meirihlutinn verður að hlusta á athugasemdir og gagnrýni. Það er lítið samráð í að valta yfir þá, sem ekki deila sýn hans og setja fram rökstudda gagnrýni. Það getur varla verið markmiðið að aðeins verði lundabúðir við Laugaveginn. Þá gætu jafnvel ferðamennirnir misst áhugann. Markmið þeirra sem fara með völdin í borginni hlýtur að vera að miðbærinn laði alla að og hafi upp á sem mesta fjölbreytni að bjóða í verslun og þjónustu.