Fluttur Hannes Jón Jónsson var til skamms tíma þjálfari West Wien í Austurríki en nú er það Bietigheim.
Fluttur Hannes Jón Jónsson var til skamms tíma þjálfari West Wien í Austurríki en nú er það Bietigheim. — Ljósmynd/EXPA/Sebastian Pucher
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Ég er fyrst og síðast þakklátur forráðamönnum Selfoss fyrir að koma til móts við óskir mínar um að ég fengi að ganga út úr þeim samningi sem ég gerði við þá snemma árs,“ sagði Hannes Jón Jónsson, handknattleiksþjálfari í Þýskalandi, í samtali við Morgunblaðið. Óvænt pólskipti urðu á síðasta laugardag þegar handknattleiksdeild Selfoss tilkynnti að Hannes Jón kæmi ekki heim í sumar og yrði eftirmaður Patreks Jóhannessonar sem þjálfari karlaliðs Selfoss eins og til stóð og frágengið var í lok janúar.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég er fyrst og síðast þakklátur forráðamönnum Selfoss fyrir að koma til móts við óskir mínar um að ég fengi að ganga út úr þeim samningi sem ég gerði við þá snemma árs,“ sagði Hannes Jón Jónsson, handknattleiksþjálfari í Þýskalandi, í samtali við Morgunblaðið. Óvænt pólskipti urðu á síðasta laugardag þegar handknattleiksdeild Selfoss tilkynnti að Hannes Jón kæmi ekki heim í sumar og yrði eftirmaður Patreks Jóhannessonar sem þjálfari karlaliðs Selfoss eins og til stóð og frágengið var í lok janúar.

Þess í stað hefur Hannes Jón skrifað undir tveggja ára samning um þjálfun þýska efstudeildarliðsins Bietigheim í Stuttgart. Hannes Jón tók við þjálfun Bietigheim í byrjun febrúar og átti aðeins að sinna starfinu út núverandi keppnistímabil. Að sögn Hannesar Jóns fóru forráðamenn Bietigheim fljótlega að leggja að honum að skrifa undir nýjan lengri samning þótt þeir vissu að hann væri þegar samningsbundinn handknattleiksdeild Selfoss.

Settumst niður fyrir tveimur vikum

„Það var síðan fyrst fyrir um tveimur vikum sem ég settist niður með konunni minni til að fara yfir hvort við ættum að ræða af alvöru við Bietigheim eða að standa við gerða samninga við Selfoss,“ sagði Hannes Jón þegar Morgunblaðið náði af honum tali þar sem hann var í önnum við að flytja frá Vínarborg til Stuttgart en Hannes Jón hefur búið í Vínarborg undanfarin fjögur ár og þjálfað lið West Wien. Honum var sagt upp hjá Vínarborgarliðinu í byrjun janúar. Kom uppsögnin eins og þruma úr heiðskíru lofti en tveimur mánuðum fyrr hafði honum óformlega verið kynntur nýr samningur við félagið. Óhætt er að segja að veður hafi þar skjótt skipast í lofti.

Á krossgötum í janúar

„Ég stóð á krossgötum í janúar eftir að hafa verið sagt upp starfinu í Vínarborg. Þá kom Selfoss inn í myndina og ég ákvað að skrifa undir samning við félagið og flytja heim með fjölskylduna í vor eftir 15 ára veru í útlöndum og gerði það af heilum hug. Eftir að málin voru frágengin við Selfoss kom tilboð frá Bietigheim, sem var í þjálfaraleit, um að stýra liðinu út keppnistímabilið fram í júní í þýsku 1. deildinni. Ég stökk á það en síðan ég byrjaði hafa forráðamenn Bietigheim legið í mér að skrifa undir lengri samning sem nú er orðin raunin eftir að forráðamenn Selfoss sýndu mér ótrúlegan skilning sem ég ákaflega þakklátur þeim fyrir,“ sagði Hannes Jón.

Hannes Jón tók við Bietigheim í erfiðri stöðu í byrjun febrúar í næstneðsta sæti þýsku 1. deildarinnar. Þótt batamerki séu á leik liðsins situr liðið enn í 17. sæti af 18 í deildinni þegar átta umferðum er ólokið. Staðan fælir Hannes Jón ekki frá því að halda áfram hjá liði félagsins.

„Mér þykir verkefnið vera spennandi þrátt fyrir stöðu liðsins í dag. Ef við föllum niður í aðra deild í vor ætla menn ekkert að leggja árar í bát. Félagið hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt á undanförum ár, jafnt utan vallar sem innan.

Umhverfið hér er einstaklega gott og tala ég þar af reynslu eftir að hafa verið víða undanfarin 15 ár, í Þýskalandi, Austurríki, Noregi og Danmörku. Hvort heldur það sem snýr að þjálfun eða fjölskyldunni. Þetta var tækifæri sem var erfitt að sleppa,“ segir Hannes, sem á þrjú börn á skólaaldri sem hafa alist upp í þýskum skólum.

Ekkert eitt betra en annað

„Ákvörðunin snerist ekki aðeins um að eitt væri betra en annað. Við vorum farin að hlakka til að flytja heim og takast á við að búa á Íslandi og takast á við íslensku deildina í viðbót við að komast í sveitina,“ bætir Hannes við. Foreldrar hans búa í Hrútafirði en á þeim slóðum dvaldi Hannes Jón með leikmenn West Wien í nokkra daga að sumarlagi fyrir tveimur árum.

„Margt spilaði inn í þegar við tókum ákvörðun okkar um að vera áfram úti. Ég er fyrst og síðast þakklátur Selfossi fyrir að þetta gekk upp. Ég geri mér alveg grein fyrir að hafa valdið félaginu og forráðamönnum þess miklum vonbrigðum enda eiga menn að standa við gerða samninga. Ég vona að skilningur sé fyrir hendi á þessari ákvörðun minni heima á Íslandi,“ sagði Hannes Jón Jónsson, handknattleiksþjálfari hjá Bietigheim í Þýskalandi.