Listunnendur Sarah Schug blaðamaður gaf ásamt Pauline Mikó ljósmyndara nýverið út bókina Isle of Art. Þar eru viðtöl, fróðleikur og myndir af listamönnum og sýningarsölum sem þær heimsóttu hringinn í kringum Ísland.
Listunnendur Sarah Schug blaðamaður gaf ásamt Pauline Mikó ljósmyndara nýverið út bókina Isle of Art. Þar eru viðtöl, fróðleikur og myndir af listamönnum og sýningarsölum sem þær heimsóttu hringinn í kringum Ísland. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

„Mig hafði alltaf langað til Íslands eftir að ég sá Nonna og Manna og fallega náttúru landsins sjö ára gömul,“ segir Sarah Schug, sem ritstýrir og gefur út bókina Isle of Art , ásamt ljósmyndaranum Pauline Mikó sem tók allar myndir í bókinni fyrir utan tvær.

Viðtöl við og fróðleikur um yfir 50 listamenn og sýningarstaði eru í bókinni. Henni er skipt niður eftir landsvæðum og ljósmyndir af listamönnum, listaverkum, landslagi og sýningarsölum prýða bókina.

Schug er þýsk og starfar sem blaðamaður, búsett í Brussel. Hún hefur starfað í lausamennsku og sérhæft sig í skrifum um listir, menningu, hönnun og ljósmyndun. Greinar eftir Schug hafa birst víða.

Mikó er belgísk-ungverskur ljósmyndari sem sérhæft hefur sig í ljósmyndum tengdum listum. Hún rekur ljósmyndastúdíó í Brussel.

„Ég kom fyrstu ferðina til Íslands 2009 og féll algjörlega fyrir náttúru landsins. Ég kom oftar og fann að það var mikil listastarfsemi á landinu. Ég leitaði að bók þar sem ég gæti fundið upplýsingar um einstaka listamenn og sýningarstaði sem væru að störfum, en fann ekki það sem ég leitaði að,“ segir Schug sem ákvað að taka málin í sínar hendur og fá Mikó til liðs við sig en þær höfðu áður unnið verkefni saman.

Schug dvaldi hér á landi í tvo mánuði árið 2017 og vann að undirbúningi bókarinnar á meðan kærasti hennar, sem er tónlistarmaður, notaði tækifærið og tók upp tónlistarmyndbönd.

Listastarf um allt land

„Ég byrjaði á því að tala við alla sem ég gat fundið á listasviðinu. Í fyrstu var ég hrædd um að ég fyndi ekki nógu marga. Sú hræðsla var óþörf og bókin hefði getað verið margfalt þykkari,“ segir Schug sem hafði engar væntingar í byrjun. Hún segir umfang listastarfs alls staðar á landinu hafi komið henni á óvart.

„Það er alveg sama hvar á land komið er, það eru listamenn að störfum alls staðar. Tökum sem dæmi Hjalteyri lengst norður í landi. Þar búa 40 manns og á staðnum er rekin menningarmiðstöðin Verksmiðjan í gamalli síldarverksmiðju,“ segir Schug sem lagði mikla áherslu á fjölbreytta flóru listamanna í bókinni.

„Bókin er ekki um þekktustu eða bestu listamenn eða sýningaraðila á Íslandi. Bókinni er ætlað að kynna nýja sem gamla listamenn, þekkta sem óþekkta, í Reykjavík og á landsbyggðinni,“ segir Schug sem er ánægð með fyrstu viðbrögð við bókinni. Það er hægt að panta bókina á netinu og við erum þegar búnar að fá pantanir frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Schug segir að nú sé unnið að því að koma bókinni í sölu í valdar lykilverslanir og sýningarstaði í stórborgum. Schug vonast til þess að halda útgáfuhóf vegna bókarinnar á Íslandi í júní. Hægt sé að kaupa Isle of Art í Listasafni Reykjavíkur, Máli og menningu og á Listasafni Akureyrar. Allar 150 bækurnar sem Schug kom með til landsins eru seldar eða komnar á sölustaði og nú vinnur hún að því að senda fleiri bækur til landsins.

„Ég fann það strax í upphafi að bókaformið var rétti vettvangurinn til þess að setja á einn stað allar upplýsingar um íslenska listamenn og sýningarstaði. Það er ákveðin tilfinning í því að handfjatla bók og enn betra þegar hún er úr góðum pappír með fallegum myndum,“ segir Schug, sem á ferðum sínum við vinnu bókarinnar hefur farið tvisvar sinnum hringinn í kringum landið.

Schug segir Íslendinga hjálpsama, gestrisna og auðvelt sé að leita sér upplýsinga.

Fengu ómetanlega hjálp

„Það voru allir tilbúnir að aðstoða okkur með því að benda á listamenn og koma okkur í samband við þá. Oft var okkur boðin gisting þegar við bönkuðum upp á hjá listamönnunum og aðra hjálp sem var okkur ómetanleg,“ segir Schug sem bendir á að í Isle of Art sé leitað svara m.a. við spurningunum um hvaða breytingar hafa orðið á listasenunni á Íslandi. Hvernig það sé að vera listamaður á lítilli eyju úti á ballarhafi, hvort það sé gott eða slæmt. Hvernig það sé fyrir erlenda listamenn að stunda list á Íslandi og hvers vegna íslenskir listamenn sem læra erlendis skili sér flestir heim aftur.

Aðspurð hvað greini íslenska listamenn frá öðrum svarar Schug eftir stutta umhugsun.

„Það er eitthvert óttaleysi og sjálfstraust sem þeir búa yfir og gera hlutina sjálfir. Mörg galleríin og sýningarsalirnir eru rekin af listamönnunum sjálfum. Ég held að hugsanlega geti það verið að sumu leyti betra að vera listamaður á Íslandi en annars staðar,“ segir Schug sem telur að það sé erfitt að verða ríkur á litlum markaði eins og á Íslandi. Það sé hins vegar meira frjálsræði í listinni á minni mörkuðum og minni pressa að framleiða í miklu magni. Schug finnst það merkilegt hversu margir listamenn komi aftur heim til Íslands að loknu námi eða starfi erlendis. Schug segir Börk Arnarsson lýsa því vel í bókinni þegar hann segir að íslenskir listamenn séu eins og laxar. Þeir syndi úr ánni og fari langt í burtu en komi alltaf aftur.