Kór Neskirkju Steingrímur segir ljóð Snorra Hjartarsonar búa yfir vissri hrynjandi og litríkum lýsingum.
Kór Neskirkju Steingrímur segir ljóð Snorra Hjartarsonar búa yfir vissri hrynjandi og litríkum lýsingum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kór Neskirkju efnir til tónleika á mánudag, 22. apríl kl. 20, í tilefni af útgáfu geisladisksins Tólf blik og tónar . Þar verða flutt verk af diskinum en hann samanstendur af kórverkum Steingríms Þórhallssonar við ljóð Snorra Hjartarsonar.

Kór Neskirkju efnir til tónleika á mánudag, 22. apríl kl. 20, í tilefni af útgáfu geisladisksins Tólf blik og tónar . Þar verða flutt verk af diskinum en hann samanstendur af kórverkum Steingríms Þórhallssonar við ljóð Snorra Hjartarsonar. Verkin voru frumflutt fyrir ári við mikla hrifningu gagnrýnenda en Jónas Sen gaf þeim tónleikum fjórar stjörnur og nefndi viðburðinn sérstaklega í áramótaumfjöllun sinni sem einn þann markverðasta á árinu.

Útgáfan er styrkt af Menningarsjóði FÍH, Nótnasjóði og Upptökusjóði STEFs og Hlóðritasjóði. Kjartan Kjartansson var upptökustjóri en samhliða geisladiskinum kemur út nótnabók með verkunum öllum. Miðar á tónleikana eru seldir á tix.is og við inngang Neskirkju þar sem tónleikarnir hefjast kl. 20.

Steingrímur, sem er organisti og stjórnandi Kórs Neskirkju, segir einn af meðlimum kórsins hafa lagt það til að hann semdi tónlist við eitthvert ljóða Snorra. „Ég er þannig gerður að mér gengur stundum erfiðlega að feta meðalveginn, og þegar ég fór að glugga í kveðskapinn þá gluggaði ég mjög rækilega,“ segir Steingrímur, sem leitaði fanga í safnbók með ljóðum Snorra.

Hrífandi augnablik

Kórinn hafði áður, undir stjórn Steingríms, flutt lag sem Hugi Guðmundsson samdi við ljóð Snorra, „Hvíld“, og var það þar sem áhuginn kviknaði. „Ég prófaði mig áfram og fann strax að í texta Snorra er lesandinn oftar en ekki komin upp á íslenskar heiðar, og honum lagið að draga fram hrífandi náttúrustemningu, eða augnablik, en þessi „tólf blik“ í titli plötunnar vísa til þess að tólf ljóð mynda heildina og tólf tónar hljóminn,“ útskýrir Steingrímur.

Ljóð Snorra reyndust miserfið viðfangs og segir Steingrímur að flest þeirra séu engir dægurlagatextar. „En ljóðin búa yfir vissri hrynjandi og litríkum lýsingum sem veita leiðsögn um hvernig má túlka textann í tónum,“ segir Steingrímur sem kveðst hafa grúskað reglulega í ljóðasafninu og gripið þau kvæði á lofti sem kölluðu á tónlist. „Oftast var hvert verk klárt strax næsta dag, og aðeins þrjú eða fjögur ljóð sem ég freistaði þess að byrja að semja tónlist við en tókst ekki að ljúka.“

Steingrímur segir útgáfu geisladisksins m.a. gerða fyrir þá sem hrifust af verkunum þegar þau voru frumflutt fyrir ári, og eins til að fagna starfi kórsins en í 60 ára sögu kórastarfs Neskirkju hefur plata eða geisladiskur aldrei litið dagsins ljós. „Kórmeðlimum þykir líka vænt um verkin og með geisladiski og nótnabók má segja að við séum að loka ákveðnum hring.

Aðspurður hvort megi eiga von á fleiri verkefnum af svipuðum toga segir Steingrímur ekki loku fyrir það skotið. „Verandi að norðan hef ég samið ein tíu kórverk við kvæði Huldu en svo væri líka gaman að gera atlögu að einum bálki af kvæðum Steins Steinars ef tími vinnst til. Það er jú þannig að tónsmíðarnar taka tíma og á meðan verkin við kvæði Snorra voru í smíðum var ég ekki alltaf viðræðuhæfur.“ ai@mbl.is