[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Um 560 fólksbifreiðar eru nú í umferð á hverja þúsund íbúa á Íslandi. Hafa þeir aldrei verið fleiri. Birtist það meðal annars í metumferð á höfuðborgarsvæðinu. Samgöngustofa heldur utan um fjölda ökutækja. Samkvæmt skránni voru tæplega 176 þúsund fólksbifreiðar í umferð á Íslandi í árslok 2013 og voru þá meðtaldir um 11.400 bílaleigubílar. Séu bílaleigubílar undanskildir voru þá 505 bílar á hverja þúsund íbúa.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Um 560 fólksbifreiðar eru nú í umferð á hverja þúsund íbúa á Íslandi. Hafa þeir aldrei verið fleiri. Birtist það meðal annars í metumferð á höfuðborgarsvæðinu.

Samgöngustofa heldur utan um fjölda ökutækja. Samkvæmt skránni voru tæplega 176 þúsund fólksbifreiðar í umferð á Íslandi í árslok 2013 og voru þá meðtaldir um 11.400 bílaleigubílar. Séu bílaleigubílar undanskildir voru þá 505 bílar á hverja þúsund íbúa.

Skal tekið fram að tölur um bílafjöldann miðast við stöðuna 31. desember en íbúafjöldinn við 1. janúar. Fyrir árið 2013 er því miðað við bílafjöldann í árslok og íbúafjöldann 1. janúar 2014 til að finna út hlutfall bíla á hverja þúsund íbúa í lok ársins 2013.

Fjölgað um 48 þúsund

Frá árslokum 2013 til og með þriðjudeginum 16. apríl hefur fólksbifreiðum í umferð fjölgað um ríflega 48 þúsund. Þar af hefur bílaleigubílum fjölgað um tæplega 12.600. Hafa því bæst við um 35.400 fólksbifreiðar í umferðina, sem eru skráðar í almennri eigu. Sú fjölgun er umfram íbúafjölgunina.

Miðað við íbúafjöldann um síðustu áramót og bílafjöldann í þessari viku er hlutfall fólksbifreiða í umferð á hverja þúsund íbúa komið í um 560. Hlutfallið myndi líklega breytast lítillega að teknu tilliti til íbúafjölgunar frá áramótum. Upplýsingar um íbúafjöldann í lok fyrsta ársfjórðungs hafa hins vegar ekki verið birtar.

Bílaflotinn samt að eldast

Óðinn Valdimarsson, sérfræðingur hjá Bílgreinasambandinu, segir að undir lok síðasta árs hafi meðalaldur fólksbílaflotans verið 12,4 ár, borið saman við 12,03 ár árið 2017. Meðalaldurinn hafi þá hækkað aftur eftir að hafa lækkað síðustu ár.

Að sögn Óðins hafa bílaleigur keypt 40% af öllum seldum nýjum bílum frá efnahagshruninu.

Síðustu þrjú ár hafi verið þrjú af þeim fimm stærstu í bílasölu í sögu landsins. Því sé ekki óeðlilegt að bílum hafi fjölgað hafi förgun eldri bíla ekki verið þeim mun meiri.

„Salan það sem af er ári er 40% minni en á sama tíma í fyrra. Til samanburðar gerðum við hjá Bílgreinasambandinu ráð fyrir 20% samdrætti sem hluta af eðlilegri sögulegri sveiflu. Það sem hefur hins vegar dregið enn frekar úr sölunni eru óvissuþættir sem hafa verið til staðar. Má þar nefna upprifjun hrunsins síðasta haust, óvissu um fyrirkomulag vörugjalda um áramót, erfiðleika flugfélaganna, kjarasamninga og verkföll, auk almennrar óvissu í efnahagslífinu. Hins vegar bendir allt til að bílasala verði áfram með ágætum á næstu árum.“

Metumferð í janúar og febrúar

Samkvæmt tölum Vegagerðarinnar í janúar og febrúar hefur umferð á höfuðborgarsvæðinu aldrei verið meiri. Um er að ræða þrjú mælisnið á höfuðborgarsvæðinu: Hafnarfjarðarveg sunnan Kópavogslækjar, Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi og Vesturlandsveg til móts við Skeljung, austan Ártúnsbrekku. Summa meðalumferðar á dag var 122.063 bílar í febrúar árið 2011 en 165.020 bílar í febrúar sl. Það er aukning um 43 þúsund bíla. Hluti þeirra líklega bílaleigubílar, enda eru þeir um 24 þúsund talsins.

Að sögn Friðleifs Inga Brynjarssonar, sérfræðings hjá Vegagerðinni, benda tölurnar til að umferðin í febrúar síðastliðnum hafi verið meiri en alla sumarmánuðina árið 2016. Þá sé septembermánuður meðtalinn en hann sé gjarnan stærstur eða með þeim stærstu á höfuðborgarsvæðinu. Það hljóti að sæta tíðindum í sögu umferðar á svæðinu.

Hann bendir á að sterk fylgni sé milli hagvaxtar og umferðar. Verði áframhald á hagvexti megi því ætla að umferðin aukist frekar. Umferðin dróst saman eftir efnahagshrunið 2008 en hefur stigaukist síðustu ár. Til dæmis hækkaði vísitala ársdagsumferðar fyrir þrjú mælisnið á höfuðborgarsvæðinu úr tæpum 108 stigum 2011 í rúm 143 stig 2018, eða um 33%. Með öðrum orðum jókst umferðin um þriðjung á tímabilinu.

Óðinn segir Bílgreinasambandið ekki hafa beina skoðun á umferðartölunum. Hins vegar kunni aukinn fjöldi bíla að leiða til aukins aksturs. Besta leiðin til að draga úr mengun sé að endurnýja flotann.

„Við setjum okkur að sjálfsögðu ekki upp á móti bættum almenningssamgöngum og öðrum leiðum sem hafa verið nefndar til að draga úr akstri eða mengun. Það sem við höfum hins vegar bent á, sérstaklega varðandi mengunarþáttinn, er að ein fljótlegasta og skilvirkasta leiðin til að draga úr mengun er að stjórnvöld ýti undir hraðari endurnýjun bílaflotans. Það ýtir honum enda sjálfkrafa út í rafmagnsbíla, tengiltvinnbíla, en ekki síst yfir í nýja bensín- og dísilbíla sem hafa langtum lægri mengunarstuðla en eldri bílar.“

Óseldir bílar líklega í förgun

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), segir sterka fylgni milli hagvaxtar og umferðar. Vísbendingar séu um að toppi hagsveiflunnar sé náð. Því sé útlit fyrir að hægja muni á vexti umferðar.

Hann telur aðspurður ekki útlit fyrir frekari fjölgun fólksbifreiða í ár. Bílasala sé að dragast saman og nýskráningum að fækka milli ára.

Þá séu margir notaðir bílar óseldir. Ekki sé ósennilegt að margir verði afskráðir og sendir í förgun.

„Fyrstu árin eftir hrunið voru einkaaðilar sáralítið að endurnýja ökutæki. Stærstur hluti endurnýjunar ökutækja var kaup bílaleiga á nýjum bílum. Eftir að almenningur fór að endurnýja ökutækin hefur bílum fjölgað. Á móti kemur metfjöldi afskráninga á eldri ökutækjum.

Markaðurinn á von á töluvert lakara ári í bílasölu en í fyrra. Fólk fer gjarnan að halda að sér höndum við endurnýjun ökutækja áður en niðursveiflan hefst í hagkerfinu. Bílakaupin veita því vísbendingar um hvernig hjarta atvinnulífsins slær.“