Anna Elín Svavarsdóttir fæddist í Reykjavík 6. ágúst 1961. Hún lést 24. mars 2019 á krabbameinsdeild Landspítalans.

Hún var dóttir Kristínar Pálmadóttur, f. 18. maí 1941, og Svavars Markússonar, f. 31. maí 1935, d. 28. október 1976.

Systir hennar er Berglind Svavarsdóttir, f. 21. október 1971, sambýlismaður hennar er Matteo Mornata, f. 6. nóvember 1976. Sambýlismaður Kristínar er Kristinn Þór Bjarnason, f. 24. desember 1940, og börn hans frá fyrra hjónabandi eru Snorri Kristinsson, f. 10. maí 1960, og Þóra Kristinsdóttir, f. 19. ágúst 1961. Sambýlismaður Þóru er Arnar Eiríkur Gunnarsson, f. 14 apríl 1956, og börn þeirra eru Sólveig Björg, f. 17. desember 1987, Helga Dagný, f. 22. janúar 1990, og Ólöf Margrét, f. 10. nóvember 1995.

Eiginmaður Önnu er François Heenen, f. 24. janúar 1957. Börn þeirra eru Kristín Ninja, f. 5. desember 1983, Sóley Isabelle, f. 8. júní 1995, og Emilía Madeleine, f. 28. ágúst 1996. Sambýlismaður Sóleyjar er Bjarki Þór Ingason, f. 20. október 1992. Sambýlismaður Kristínar Ninju er Hilmar Gunnarsson, f. 20. október 1981, og börn þeirra eru Anna Katrín, f. 11. mars 2007, Jón Gunnar, f. 21. júní 2016, og Ari, f. 7. mars 2018. Sonur Hilmars og stjúpsonur Kristínar er Viktor Máni, f. 8. september 2001.

Systir Kristínar, móður Önnu, var Sigrún Pálmadóttir, f. 29. apríl 1939, d. 6. september 1980, börn hennar eru Pálmi Guðmundsson, Inga Kolbeinsdóttir og Sigurður Kolbeinsson.

Anna ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Hún lærði ljósmyndun hjá Leifi Þorsteinssyni, útskrifaðist árið 1987 og starfaði sem ljósmyndari upp frá því. Árið 2004 hóf hún nám í þroskaþjálfun við Kennaraháskólann og útskrifaðist þaðan árið 2007. Hún stofnaði fyrirtækið Lífsögu haustið 2011.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Það er andstætt lögmálum lífsins að sjá á eftir barninu sínu.

Minningar eru margvíslegar, gleði og sársauki. Gleðin að sjá hana dafna og þroskast. Sjá hana sem elskaða móður og eiginkonu, dáða af ættingjum og vinum.

Sorgin setti mark sitt á líf okkar þegar Svavar lést eftir stutt en erfið veikindi.

Það er nú huggun á þessum erfiðu tímum að vera viss um að Anna nær aftur heilsu á æðri vegum.

Ég veit að það hefði verið vilji Önnu að við sem syrgjum hana óendanlega mikið höldum áfram með hennar kraft að leiðarljósi.

Mamma.

Elsku Anna æskuvinkona okkar er látin. Það er óendanlega sárt að kveðja hana. Anna var á margan hátt límið í vinkvennahópnum. Hópi sem fylgdist að frá æskuárum, sumar alla leið úr Breiðagerðisskóla þótt hópurinn hafi ekki verið fylltur fyrr en á fyrstu metrunum í Réttarholtsskóla.

Undanfarnar vikur höfum við rifjað upp fjölda fallegra minninga af vinkonu okkar. Af hlýju æskuheimili Önnu í Goðalandinu, sem var framandi og listrænt – og sá staður sem við fengum fyrst að smakka hvítlauk, minningar af ferðalögum og gleðistundum. Þakklæti er ofarlega í huga þegar við minnumst Önnu. Samfylgd okkar og vinátta er þroskasaga okkar allra, frá barnæsku til fullorðinsára. Vinátta þar sem engu skipti þótt langt liði milli samverustunda.

Anna hafði svo mikið að gefa og frá mörgu að segja; hún var trygg vinkona og sérlega næm og hafði þann einstaka eiginleika að geta með nærveru sinni einni saman umvafið mann hlýju og gleði. Hún tókst á við erfið veikindi af æðruleysi og þeirri reisn sem einkenndi Önnu alla tíð. Við sem fylgdumst með henni heyja baráttu við krabbamein dáðumst að þeim styrk og þeim baráttuanda sem hún hafði yfir að búa. Veikindin stöðvuðu hana ekki í því að vera sú sem hélt hópnum okkar saman, skipulagði ferðir og vinafundi. Hún hafði einsett sér að njóta hvers dags og naut sín hvergi betur en í faðmi fjölskyldu sinnar og með sínum nánustu. Það er huggun harmi gegn að Anna kunni sannarlega að lifa lífinu.

Síðasta ferðin sem við vinkonurnar lögðum í saman norður á Hof í Skagafirði mun lifa í minningunni. Anna skrásetti þá ferð, með sínu næma auga, í gegnum ljósmyndir sem okkur þykir sérstaklega vænt um, nú eftir að hún er fallin frá. Á Hofi áttum við dásamlegar samverustundir, hlógum og rifjuðum upp bernskubrek. Það var ekki ætlunin að sú ferð yrði sú síðasta sem við færum í með Önnu, en því dýrmætari er hún.

Anna var margt. Hún var listfengin og afburðagreind. Hún hafði einlægan áhuga á öðru fólki, sem skilaði sér í öllu því sem hún fékkst við, í leik eða í starfi, í samskiptum við fólk, í listsköpun eða því sem átti hug hennar í seinni tíð, fyrirtækið hennar Lífssaga. Þar skrásetti hún minningar annarra í máli og myndum og gaf út í bók. Með Lífssögu tókst henni að sameina einlægan áhuga sinn á fólki, ljósmyndum og sögum. Hún var nefnilega haldin óseðjandi söguþrá því sjálf var hún einstakur sögumaður, húmoristi og hláturmild. Hún var hrókur alls fagnaðar hvert sem hún kom. Að vera með Önnu var einfaldlega svo skemmtilegt.

Það eru forréttindi að hafa átt Önnu sem vinkonu og sárt að hugsa til þess að hún sé farin. Hugurinn leitar á þessum erfiðu tímum til fjölskyldu Önnu, sem hafa misst eiginkonu, móður, ömmu, dóttur, systur og einstaka manneskju. Þeirra missir er sárastur. Skarðið sem fráfall vinkonu okkar skilur eftir sig verður ekki fyllt.

Lífssaga Önnu er sannarlega merkileg og okkur ómetanleg. Við vinkonurnar munum ylja okkur við minningarnar um ókomna tíð.

Já blessuð vertu, vina mín,

og vertu sæl um skeið.

Svo vitja ég þín um þungan veg,

um þúsund mílna leið.

(Robert Burns í þýðingu

Þorsteins Gylfasonar)

Laufey, Unnur, Sigrún, Ingibjörg og Sigríður.

Elskulega vinkona okkar, Anna Elín, er fallin frá. Eftir sitjum við ríkari því við nutum þess að vera samferða henni stóran hluta lífs okkar. Anna var einstök kona, umburðarlynd, glaðvær og hláturmild. Frásagnargleði hennar var einstaklega skemmtileg, hún var gefandi, fordómalaus og aðlaðandi. Allt varð svo miklu skemmtilegra þegar hún var með.

Anna Elín var heimskona með fágaða framkomu. Hún ferðaðist víða, þekkti marga og áhugasviðið var vítt en þar má nefna kvikmyndir, bókmenntir og matarmenningu. Hún hafði sterkan áhuga á fólki og fann auðveldlega til samkenndar með öðrum. Öllum leið vel nálægt Önnu.

Anna Elín var listakona, hafði næmt auga fyrir umhverfi sínu, góður ljósmyndari og starfaði við fjölbreytt verkefni. Í fyrirtæki sínu, Lífssögu, sameinaði hún frásagnargleðina, ljósmyndunina og einlægan áhuga á mannlífi og setti saman bækur um lífshlaup fólks.

Þegar Anna var lítil stelpa í Fossvoginum átti hún sér þann draum að vera hluti af stórri og litríkri sígaunafjölskyldu. Á bernskuheimilinu var Anna reyndar lengi eina barnið og fékk þar gott atlæti sem hefur eflaust orðið henni innblástur í að veita dætrum sínum alla tíð það besta. Hjá Önnu var fjölskyldulífið í fyrsta sæti og naut hún þess að eiga kærleiksríkt fólk í kringum sig.

Anna kynntist Francois fyrir ríflega 30 árum. Saman bjuggu þau sér fallegt heimili í Sörlaskjólinu með dætrunum þremur, Kristínu, Sóleyju og Emilíu. Á heimili þeirra voru allir velkomnir, vinir, kunningjar og fjölskylda og ekki síður vinir dætranna.

Síðustu árin voru Önnu erfið. Samt sem áður átti hún innihaldsríkt og fallegt líf og glettnin og húmorinn voru alltaf skammt undan. Jákvætt viðhorf og baráttuvilji eru sterk öfl sem Anna beitti óspart.

Skarðið er stórt í vinahópnum. Söknuðurinn er mikill en við munum ylja okkur við fallegar minningar um okkar einstöku vinkonu sem við hefðum sannarlega viljað fá að njóta miklu fleiri samverustunda með. Við munum leggja okkur fram um að miðla áfram hennar góðu kostum, glaðværðinni, fordómaleysinu og umburðarlyndinu.

Hjartkærar samúðarkveðjur sendum við vini okkar Francois, dætrunum Kristínu, Sóleyju og Emilíu, Kristínu móður Önnu og manni hennar Kristni, Berglindi systur hennar, tengdasonum, barnabörnum og öllum sem tengdust henni fjölskylduböndum.

Gerður, Inga, Kristína, Sigríður Anna, Sigrún og Steinunn.

Fyrir liðlega 35 árum síðan lágu leiðir okkar Önnu Elínar fyrst saman. Fljótt tókst með okkur mikil vinátta, sem aldrei bar skugga á. Annella var einstaklega töfrandi manneskja með mikla útgeislun. Ég held hún hljóti að hafa heillað alla sem á vegi hennar urðu; með glæsileika sínum, glettni og góðri nærveru.

Annella var afskaplega gefandi persóna og alltaf fór maður glaður í bragði af hennar fundi. Ósjaldan fór ég full angistar að vitja hennar, en ávallt tókst henni að fylla mig bjartsýni og von. Viljastyrkur og ákveðni voru meðal aðalsmerkja hennar og hún lét aldrei bilbug á sér finna í stríðinu við meinið illvíga.

Anna Elín hafði til að bera innsæi og næmi listamannsins og birtist það glöggt í ljósmyndunum hennar. Sérstaklega eru mér minnisstæðar uppstillingar af bollapörum sem urðu í meðförum Önnu eins og ljóðrænn óður til hversdagsins.

Það er mikil gæfa fólgin í því að hafa átt samfylgd með Önnellu, en grimmt að þurfa að kveðja hana svona snemma. Sársaukinn er nístandi og tilhugsunin um að samfylgdinni sé lokið er nánast óbærileg því ég á eftir að sakna hennar óskaplega, en ég treysti því að við hittumst aftur í sumarlandinu. Þar munum við skála í sólskinsdrykkjum og fagna nýrri tilveru.

Valdís.