Hetjan Spánverjinn Fernando Llorente fagnar marki sínu gegn Manchester City á Ehtiad-vellinum í gærkvöld sem réð úrslitunum í einvíginu.
Hetjan Spánverjinn Fernando Llorente fagnar marki sínu gegn Manchester City á Ehtiad-vellinum í gærkvöld sem réð úrslitunum í einvíginu. — AFP
Liverpool og Tottenham komust í gær í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Liverpool vann 4:1 sigur á útivelli gegn Porto og mætir Spánarmeisturum Barcelona í undanúrslitunum.

Liverpool og Tottenham komust í gær í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Liverpool vann 4:1 sigur á útivelli gegn Porto og mætir Spánarmeisturum Barcelona í undanúrslitunum. Tottenham tapaði fyrir Manchester City 4:3 á Ethiad-vellinum í Manchester í hreint mögnuðum og æsispennandi leik en komst áfram á útimarkareglunni og leikur við spútniklið Ajax í hinum undanúrslitaleiknum.

Leikur City og Tottenham verður lengi í minnum hafður en liðin buðu upp á fótboltaveislu af bestu gerði og sannkallaðan spennutrylli. Þrjú mörk litu dagsins ljós á fyrstu 10 mínútum leiksins og þau voru orðin fimm á fyrstu 21. mínútu leiksins. Raheem Sterling hóf veisluna á 4. mínútu en Heung-Min Son svaraði fyrir Tottenham með tveimur mörkum. Bernardo Silva og Sterling komu City í forystu og staðan 3:2 í hálfleik. Sergio Agüero kom City í 4:2 á 59. mínútu en Spánverjinn Fernando Llorente minnkaði muninn 20 mínútum fyrir leikslok. Dómari leiksins þurfti að skoða markið á myndbandi áður en hann dæmdi það gilt en áhöld voru uppi um að Llorente hefði skorað með hendinni. Undir lok leiksins kom Sterling boltanum í netið við gríðarlegan fögnuð stuðningsmanna City en myndbandsdómarar gáfu dómaranum merki um að um rangstöðu hefði verið að ræða og draumur City um að vinna fernuna varð þar með að engu.

Leikmenn mínir eru hetjur

„Þetta var ótrúlegur leikur. Ég er svo ánægður og stoltur. Leikmenn mínir eru hetjur að vera komnir svona langt. Þessi leikur tók á taugarnar og maður var glaður og vonsvikinn til skiptis. Við sýndum frábæran karakter,“ sagði Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham.

Porto náði að stríða Liverpool fyrstu 20 mínúturnar og fékk þá færi til að skora mark eða mörk en eftir að Sadio Mané kom Liverpool yfir á 26. mínútu var undanúrslitasætið tryggt hjá Liverpool. Mohamed Sala, Roberto Firmino, og Virgil van Dijk skoruðu hin þrjú mörk Liverpool en í millitíðinni náði Eder Militao að minnka muninn í 2:1 fyrir portúgölsku meistarana. „Við vorum seinir í gang en eftir fyrsta markið leið mér vel. Ég hlakka mikið til að spila við Barcelona. Ég hef aldrei áður mætt því í keppnisleik og það verður skemmtileg upplifun,“ sagði Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, en hans menn töpuðu fyrir Real Madrid í úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra.

gummih@mbl.is