Karl V. Stefánsson fæddist 6. ágúst 1940. Hann lést 16. mars 2019.

Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku afi.

Mikið var erfitt að geta ekki verið hjá þér síðustu dagana, en það var hlýtt að hugsa til þess að þú varst umvafinn fjölskyldunni sem elskaði þig svo mikið. Þessi veikindi áttu nú alls ekki við þig, því þú vildir helst af öllu vera með hendurnar í framkvæmdum uppi á Þingvöllum með ömmu að gera bústaðinn. Elsku afi, mikið er ég þakklát fyrir að hafa átt ykkur ömmu að alla tíð og í raun sem foreldra nánast líka. Þið tvö eigið alltaf sérstakan stað í hjarta mínu. Minningarnar um allar heimsóknirnar í Vaglaskóg, þar sem þið tókuð alltaf á móti okkur með veisluhöldum og gleði, minningarnar þegar ég var að koma í heimsókn með vinum norður til Akureyrar og þið voruð búin að setja út á tertu fyrir okkur, baka kleinur og snúða, og strauja nýþvegin rúmföt á rúmið fyrir mig. Minningarnar um Kleifargerði og bestar af öllu minningarnar þar sem við sátum öll saman í rauða sófasettinu að spjalla um lífið og tilveruna. Mikið vona ég að þú sért á góðum stað í gleðinni með Stjána frænda og fleirum. Verkjalaus og glaður. Sakna þín mikið og mun alltaf elska þig.

Öll við færum, elsku vinur,

ástar þökk á kveðjustund.

Gleði veitir grátnu hjarta

guðleg von um eftirfund.

Drottinn Jesú, sólin sanna,

sigrað hefur dauða og gröf.

Að hafa átt þig ætíð verður,

okkur dýrmæt lífsins gjöf.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði, elsku afi

Við pössum ömmu fyrir þig.

Þín afastelpa

Unnur María.