Góður Ægir Þór Steinarsson átti frábæran leik á mánudaginn.
Góður Ægir Þór Steinarsson átti frábæran leik á mánudaginn. — Morgunblaðið/Hari
Í kvöld ræðst það hvort Stjarnan eða ÍR freistar þess að koma í veg fyrir að KR vinni sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í körfubolta karla.

Í kvöld ræðst það hvort Stjarnan eða ÍR freistar þess að koma í veg fyrir að KR vinni sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í körfubolta karla. Sigurliðið í kvöld fær páskahelgina til að kasta mæðinni áður en úrslitaeinvígið við KR hefst næsta þriðjudagskvöld.

ÍR-ingar hafa komið flestum á óvart með framgöngu sinni í úrslitakeppninni hingað til en nýttu þó ekki tækifærið til að slá Stjörnuna út á heimavelli á mánudaginn. Þeir þurfa því að vinna öðru sinni í Garðabænum til að komast í úrslitaseríuna. Það yrði þá í fyrsta skipti frá því að úrslitakeppninni var komið á laggirnar árið 1984 sem ÍR leikur í úrslitaeinvíginu. Þeir 15 Íslandsmeistaratitlar sem félagið getur státað af unnust allir á árunum 1954-1977. ÍR hefur raunar aðeins þrisvar áður komist í undanúrslit, eða árin 2005, 2008 og svo í fyrra þegar liðið var slegið út af Tindastóli í fjórum leikjum, eftir að hafa unnið Stjörnuna 3:1 í 8-liða úrslitum.

Stjörnumenn hafa þegar unnið sinn fyrsta deildarmeistaratitil í vetur, og sinn fjórða bikarmeistaratitil, en aðalmarkmiðið hefur alltaf verið að landa fyrsta Íslandsmeistaratitlinum. Þeir freista þess í kvöld að komast í úrslitaeinvígið í þriðja sinn í sögunni en Stjarnan tapaði 3:1 gegn KR-ingum í úrslitunum árið 2011 og 3:2 gegn Grindvíkingum árið 2013.

Stjarnan vann 96:63 í fyrsta leik einvígisins við ÍR en ÍR næstu tvo 85:76 og 68:62. Stjarnan vann svo 90:75 á mánudag þar sem Ægir Þór Steinarsson stal senunni með stórkostlegum leik og skoraði 34 stig.