Orka Sindri Sindrason, forstjóri CRI.
Orka Sindri Sindrason, forstjóri CRI.
Pétur Hreinsson peturhreins@mbl.is Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hlaut á dögunum 250 milljóna króna þróunarstyrk frá Evrópusambandinu undir formerkjum rannsóknaráætlunarinnar „EU Horizon 2020“.

Pétur Hreinsson

peturhreins@mbl.is

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hlaut á dögunum 250 milljóna króna þróunarstyrk frá Evrópusambandinu undir formerkjum rannsóknaráætlunarinnar „EU Horizon 2020“. CRI hefur hlotið þrjá styrki af sambærilegri stærðargráðu frá Evrópusambandinu en hinum nýfengna styrk er ætlað að styðja innleiðingu lausna til þess að mæta loftslagsmarkmiðum Evrópusambandsins sem byggjast á aukinni sjálfbærni og orkuskiptum í samgöngum. CRI hefur verið starfandi frá árinu 2006 og þróað tækni til hagnýtingar koltvísýrings og grænnar orku í iðnaði. Framleiðir fyrirtækið með þessari tækni endurnýjanlegt metanól sem nýta má sem eldsneyti eða í efnaiðnaði. Styrkurinn gerir CRI kleift að vinna að markaðsvæðingu þessarar tækni og er fyrirtækið nú þegar að vinna að undirbúningi á 50.000 tonna verksmiðjum í Noregi og Kína, að sögn Sindra Sindrasonar, forstjóra CRI.

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir fyrirtækið og tæknina sem það hefur þróað. Þetta fór í gegnum nálarauga í 2020-fjárfestingaráætlunar Evrópusambandsins. Bara það að komast þar í gegn er mikil viðurkenning fyrir okkar. Síðan er auðvitað betra að þessu fylgir verulegt fjármagn til þess að fylgja þessu eftir,“ segir Sindri í samtali við Morgunblaðið. Samtals vinna 40 manns hjá CRI en fyrirtækið er með 4.000 tonna þróunarverksmiðju í Svartsengi hér á landi. Hefur fyrirtækið kostað til 100 milljónum bandaríkjadala, um 12 milljörðum króna, sem farið hafa í þróun á þessari tækni og markaðssetningu. „Við erum núna að vinna í fyrstu verkefnunum á iðnaðarskala sem felast í því að reisa verksmiðjur sem framleiða 50 til 100 þúsund tonn á ári í Noregi og Kína.“