Skákmeistari Christopher Yoo, aðeins 12 ára, tefldi á Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í Hörpu á þriðjudag.
Skákmeistari Christopher Yoo, aðeins 12 ára, tefldi á Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í Hörpu á þriðjudag. — Morgunblaðið/Eggert
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Bandaríski skákmaðurinn Christopher Yoo er 12 ára gamall og jafnframt yngsti alþjóðlegi meistarinn í skáksögu Bandaríkjanna. Hann keppti á Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu á dögunum og lauk keppni með 5½ vinning af 9 mögulegum. Christopher lærði að tefla 6 ára að aldri og skaust fljótt upp á stjörnuhimininn en það tók hann aðeins 1 ár að hækka úr 100 amerískum skákstigum upp í 1.800 stig. Nú er hann með 2.414 Elo-stig og sá stigahæsti í heiminum á sínum aldri.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Bandaríski skákmaðurinn Christopher Yoo er 12 ára gamall og jafnframt yngsti alþjóðlegi meistarinn í skáksögu Bandaríkjanna. Hann keppti á Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu á dögunum og lauk keppni með 5½ vinning af 9 mögulegum.

Christopher lærði að tefla 6 ára að aldri og skaust fljótt upp á stjörnuhimininn en það tók hann aðeins 1 ár að hækka úr 100 amerískum skákstigum upp í 1.800 stig. Nú er hann með 2.414 Elo-stig og sá stigahæsti í heiminum á sínum aldri.

Dugnaður og hæfileikar eiga stærstan þátt í velgengni hans á skáksviðinu, að eigin sögn, en Christopher segist stunda skák hátt í fjóra tíma á dag.

„Þegar ég var byrjandi æfði ég mig mest í taktík og miðtaflinu en síðan komu byrjanir og endatöfl. Núna verð ég hins vegar að leggja áherslu á alla þætti skákarinnar,“ segir Christopher. Hann er að auki lunkinn við að búa til endataflsþrautir og hefur til að mynda keppt í endataflsþrautamótum, þar sem keppendur eru verðlaunaðir fyrir fallegustu endataflsþrautina.

Nýlega náði hann þriðja sæti af 23 keppendum í slíku móti, Helmut Steniczka-minningarmótinu, sem lauk fyrir skemmstu.

Skemmtilegast að vinna

Það sem heillar Christopher mest við skákina er einmitt meðal annars fegurð skáklistarinnar. „Það að vinna finnst mér skemmtilegast en líka fegurðin. Ég hef kynnst því af endataflsþrautunum og fleiru að skákin býður upp á svo margt áhugavert.“

Faðir Christophers, Young-Kyu Yoo, er mikill skákáhugamaður og kynnti honum skáklistina. Hann hóf að kenna honum mannganginn þegar hann var fimm ára, en þá var Christopher of ungur til að skilja skáklistina. Ári síðar, þegar Christopher varð 6 ára, fór hann að ná betri tökum á skákinni en tveimur mánuðum eftir að hann byrjaði í skáktímum eftir skóla fór hann að sigra föður sinn.

Í janúar síðastliðnum landaði hann alþjóðlegum meistaratitli á skákmótinu Bay Area International, og varð þar með yngsti alþjóðlegi meistarinn í sögu Bandaríkjanna. Á mótinu varð hann jafnframt sá yngsti til að sigra ofurstórmeistara þegar hann bar sigur úr býtum gegn Víetnamanum Le Quang Liem, sem var þá með 2.710 Elo-stig. Christopher segir úrslitin hafa komið flatt upp á sig.

„Ég var ekkert svo upptekinn af því en ég hafði í huga að ég gæti orðið alþjóðlegur meistari,“ segir Christopher að endingu.