Rósa Margrét Tryggvadóttir rosamargrett@gmail.com Um 250 þúsund króna munur getur verið á ábyrgðartryggingu ökutækis á milli tryggingarfélaga, miðað við tilboð sem ungur ökumaður fékk í ökutækjatryggingu frá tveimur tryggingarfélögum.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosamargrett@gmail.com

Um 250 þúsund króna munur getur verið á ábyrgðartryggingu ökutækis á milli tryggingarfélaga, miðað við tilboð sem ungur ökumaður fékk í ökutækjatryggingu frá tveimur tryggingarfélögum. Var verðið á ábyrgðartryggingunni um 36.000 krónur hjá Verði en um 287.000 krónur hjá TM. Ökumaðurinn, sem fæddur er 1995, segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi fengið þær upplýsingar frá TM að aldur hafi haft megináhrif á verðlagninguna. Var honum greint frá því að hann væri í áhættuhópi til 27 ára aldurs. Ökumaðurinn segir að ekki hafi skipt máli að bíllinn hafi verið í hans eigu í rúm sex ár og væri tjónlaus. Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála hjá TM, segir í viðtali við Morgunblaðið að aldur sé ein af þeim breytum sem vegi þungt þegar áhætta ökumanna sé metin. Hann segist ekki geta gefið upp nákvæmar upplýsingar um hvenær aldur hættir að hafa áhrif á verðlagningu hjá TM. Það sé þó á milli tvítugs og þrítugs en að upp úr 25 ára aldri fari aldur að hafa minni áhrif á iðgjöldin. „Miklar líkur eru á því að fólk lendi í árekstri á fyrstu árunum í umferðinni. Það endurspeglast fullkomlega í okkar gögnum. Þetta er ekki byggt á getgátum heldur á því hvernig reynslan er á hverjum hópi fyrir sig,“ segir Kjartan.

Sigurður Óli Kolbeinsson, framkvæmdastjóri tjóna og stofnstýringar hjá Verði, segir að Vörður miði yfirleitt við að aldurinn hætti að hafa áhrif á áhættumat þegar einstaklingur er í kringum 24 ára aldurinn. Á þeim tíma segir Sigurður að aldurinn hætti að skipta máli og einstaklingur sé ekki lengur verðlagður sérstaklega eftir aldri.

Ungir ökumenn kanni verðmun

Sigurður segist ekki vita hver skýringin sé á þessu ósamræmi milli tryggingarfélaga en getur sér til um að TM fylgi öðru viðmiði þegar kemur að því að meta fólk sem unga ökumenn. Aron Hugi Helgason, lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum, segist reglulega fá fyrirspurnir frá ungum ökumönnum sem vilja tryggja ökutæki. Hann segir félögin verðleggja unga ökumenn almennt hærra vegna þess að hópurinn sé tölfræðilega líklegri til að lenda í tjóni en viðmiðin geti verið breytileg. Samtökin hvetji því unga neytendur að leita til allra tryggingarfélaganna til að fá besta tilboðið sem bjóðist þeim á markaðnum.