Dýrafjarðargöng Hreinn Haraldsson, fyrrverandi vegamálastjóri, og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra við athöfnina í gær.
Dýrafjarðargöng Hreinn Haraldsson, fyrrverandi vegamálastjóri, og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra við athöfnina í gær. — Morgunblaðið/Guðlaugur Albertsson
Sigurður Bogi Sævarsson Stefán Gunnar Sveinsson „Þetta var ánægjuleg stund og mér fannst gaman að finna eftirvæntinguna meðal heimafólks,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en hann sprengdi í gær síðasta...

Sigurður Bogi Sævarsson

Stefán Gunnar Sveinsson

„Þetta var ánægjuleg stund og mér fannst gaman að finna eftirvæntinguna meðal heimafólks,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en hann sprengdi í gær síðasta haftið í Dýrafjarðagöngum, sem tengja saman Arnarfjörð og Dýrafjörð.

Sigurður Ingi segir að göngin muni tengja saman atvinnusvæði á Vestfjörðum og þar með skapa ný tækifæri á svæðinu „Vissulega erum við aðeins hálfnuð með jarðgöngunum og eftir er að koma samgöngum um Dynjandisheiði í varanlegt horf. Því er til að svara að þegar einum áfanga lýkur skapar það þrýsting á frekari framkvæmdir og að áfram sé haldið og munum við líka gera,“ segir Sigurður Ingi.

Þrátt fyrir að göngin séu nú opin er enn eftir mikil vinna áður en þau verða tekin í notkun. Meðal annars þarf að ljúka styrkingum og klæða þar sem vatn sækir að og þá þarf að leggja rafmagn í göngin og lagnir í gólf, auk þess sem eftir er að leggja burðarlag og malbik. Stefnt er að því að göngin verði fullkláruð og opnuð 1. september á næsta ári.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru göngin 5,6 kílómetrar á lengd með vegskálum, sem samtals eru þrjú hundruð metrar á lengd. Hæð vegskálaendanna er 35 metrar y.s. í Arnarfirði og 67 metrar y.s. í Dýrafirði. Verkið hófst í júní 2017 með undirbúningsvinnu, en fyrsta sprengingin í Arnarfirði var 12. september það ár og fyrsta sprengingin í Dýrafirði var 12. október 2017.