Guðmundur Arnfinnsson hugsar til landpóstanna á Boðnarmiði: „Fyrst linnir ei leiðindatíðinni, ég leita mér skjóls í hríðinni“, kvað pósturinn Pétur í póstferð um vetur, „og hjá henni Bjarghildi bíð inni.

Guðmundur Arnfinnsson hugsar til landpóstanna á Boðnarmiði:

„Fyrst linnir ei leiðindatíðinni,

ég leita mér skjóls í hríðinni“,

kvað pósturinn Pétur

í póstferð um vetur,

„og hjá henni Bjarghildi bíð inni.“

Margt er vel kveðið og skemmtilega í Skagafirði. Jón Gissurarson skrifaði á fimmtudaginn: „Nú er hér sunnan gola og fimm gráðu hiti. Örþunn skýjaslæða breiðir sig um himinhvolfið og sólin er farin að verma landið góða í norðurhöfum. Útsýnið er fagurt héðan frá Víðimýrarseli.“

Engin hrellir veðra vá,

víkur klaka þeli.

Vekur yndi okkur hjá

útsýnið frá Seli.

Þar sem fegurð gleður gest

gott er að standa vörðinn.

Er frá Seli útsýn best

yfir Skagafjörðinn.

Jón hafði orð á því að einn ágætur vinur sinn segði, að það væri hvasst í Reykjavík:

Í borginni er veðra vá,

valda mun það skorðan.

Bölvís tíð er brostin á,

en blíða fyrir norðan

Og bætti síðan við; „Það er stundum sagt svona í gríni að lognið fari hratt yfir þegar hvassviðri geisa. Hér var allhvass vindur í gærkveldi og framan af nóttu, en nú hefur lægt og er aðeins sunnan gola og átta gráðu hiti. Allur snjór er farinn á láglendi eftir góðviðri undanfarna daga.

Hratt um landið lognið fer,

lítt það veldur striti,

þar sem núna úti er

átta gráðu hiti.

Halldór Guðlaugsson var með á nótunum:

Þegar lognið hraðann hækkar

hverfur burtu jarðar þeli

og sjórinn hratt í lautum lækkar

frá Löngumýri upp að Seli.

Magnús Halldórsson byggir „á fornri reynslu“:

Hormónarnir hal og víf

hrífa´á slóðir kunnar

svo kynngimagnað kviknar líf

af krafti náttúrunnar.

Þetta er falleg vorstemmning hjá Steini Steinari í Hlíðar-Jónsrímum:

Sama er mér hvað sagt er hér á Suðurnesjum.Svört þótt gleymskan söng minn hirði

senn er vor í Breiðafirði.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is