Steingrímur Gíslason fæddist 22. september 1921. Hann lést 8. apríl 2019.

Útför Steingríms fór fram 16. apríl 2019.

Látinn er kær sveitungi, Steingrímur Gíslason fv. bóndi og hreppstjóri, Torfastöðum, Grafningi.

Þar ólst hann upp í námunda við fagurblátt Sogið og Álftavatn og svanasöng á fallegum vor- og sumarkvöldum með víðáttumikið útsýni yfir tignarlegan fjallahring og nærsveitir.

Mannlífið á hreppnum breytist óneitanlega við fráfall þeirra sem þar hafa markað djúp spor til verka og framfara í áratugi og gert mannlífið litríkt á ýmsa vegu.

Á Torfastöðum ræktaði Steingrímur upp sitt ævistarf ásamt Birnu eiginkonu sinni og börnum með myndarlegu búi.

Hann var léttur í lund og unni sveit sinni mjög.

Steingrímur minntist þess oft þegar þeir ungir að árum, Ólafur Jóhann af næsta bæ, síðar stórskáld, fóru í hinar ýmsu ævintýraferðir um svæðið og í Tungá til veiða.

Í þessum ferðum hefur búskaparáhugi Steingríms væntanlega vaknað sem og áhugi Ólafs Jóhanns að yrkja til náttúrunnar sem og til stangveiða.

Steingrímur varð fyrir þungum áföllum um ævina við missi á eiginkonu sinni, um aldur fram, Birnu Jónsdóttur, og dætrum þeirra, Sigríði Maríu og Kristínu Rósu.

Megi Guð vernda þær og minningu þeirra.

Steingrímur unni börnum sínum mjög og fóstursyni og var aðdáunarvert að heyra hann segja frá lífshlaupi þeirra, krafti og velferð.

Eftir að Birna lést og heilsu Steingríms hrakaði brá hann búi og dvaldi/bjó eftir það á Ljósheimum, Selfossi, þar sem honum líkaði dvölin afar vel.

Steingrímur kom árvisst í áratugi ríðandi til haustleita að Nesjavöllum, þ.e. í fyrri og seinni leit, og gisti þá á bæ ásamt öðrum leitarmönnum smölunardaginn eftir á Mosfellsheiði, Henglafjöllum, Dyrfjöllum og dölunum þar í kring og síðan á syðri Grafningsfjöllum í Selflatarrétt á þriðja degi. Hann var ávallt vel ríðandi og með snyrtilegan búnað til hesta og annars leitarbúnaðar.

Eitt þótti okkur krökkunum stórmerkilegt í farteski Steingríms, tóbaksbaukur sem gerður var úr stórri skotpatrónu frá stríðsárunum.

Um Steingrím væri hægt að skrifa langt ávarp, en þau skrif verða að bíða betri tíma.

Í spjalli mínu við Steingrím á hans efri árum sagði ég gjarnan, að það væru forréttindi að fá að fræðast hjá manni eins og honum um fyrri tíma í Grafningnum sem víðar. Hann sagði þá gjarnan að það gæti vart verið gaman að spjalla við gamla kalla nema þá í hófi og kímdi við, sem sýndi léttleika hans og glettni.

Steingrímur var léttur á fæti þrátt fyrir háan aldur og í síðustu skiptin sem ég heimsótti hann á Ljósheima flaug hann nánast um gangana og var ern í spjalli sem fyrr.

Með hækkandi vorsól og vorboðasöng þar sem bergvatnið hjalar með bökkum Sogsins og Álftavatns kveðjum við kæran sveitunga með virðingu og þökk fyrir góðar samverustundir fyrr og nú.

Við fjallavötnin fagurblá

er friður, tign og ró.

Í flötinn mæna fjöllin há

með fannir, klappir, skóg.

Þar líða álftir langt í geim

með ljúfum söngva klið,

og lindir ótal ljóða glatt

í ljósrar nætur frið.

(Hulda)

Guð verndi Steingrím og minningu hans

Börnum, fjölskyldum og vinum Steingríms vottum við innilega samúð okkar.

Fyrir hönd Nesjavallafjölskyldunnar,

Ómar G. Jónsson.

Fyrsta minning mín með Steingrími er þegar ég sem lítil stelpa fór með honum með mjólkina á hesti og kerru niður á brúsapall, þangað sem nágrannarnir komu einnig með sína mjólk. Þar myndaðist þá smá samkoma fyrir bændurna til skrafs og ráðagerða.

Steingrímur var hugmyndaríkur, ráðagóður og skapandi bóndi. Hann ræktaði upp jörðina, byggði á Torfastöðum íbúðarhús, fjós og hlöðu, allt með handafli og hjálp vina og vandamanna. Grímur og Ólafur Jóh. Sigurðsson voru vinir í æsku og er Grímur sögupersóna hans í fyrstu bók hans, Við Álftavatn, sem Ólafur skrifar á fermingaraldri. Fyrsta sagan heitir Sumardagurinn fyrsti og þar lýsir Ólafur: Ingólfsfjalli háu og tignarlegu, með stórhrikalegum hamraborgum, engjarnar sefgrænar, fagrir hvammar, lautir og fell. Grími lýsir hann sem litlum og grönnum og einstaklega skemmtilegum dreng með síbrosandi andlit. „Við Grímsi erum uppfinningamenn; foreldrar okkar kalla okkur fyrirtektarormana.“ Grímsi var aldrei ráðalaus. Þessi lýsing Ólafs finnst mér passa sérlega vel við Grím.

Margar góðar sögustundir hef ég átt með Grími í gegnum tíðina, bæði í heimsóknum og símtölum. Nokkur síðastliðin sumur höfum við Grímur farið saman í bíltúr og komum við þá fyrst og fremst við á Torfastöðum, Úlfljótsvatni og síðan mismunandi hvert ferðinni var heitið eftir það. Þetta voru góðar samverustundir þar sem Grímur sagði sögur, deildi fróðleik og ég kem til með að sakna. Hvíl í friði.

Árný V. Ingólfsdóttir.