Jæja, ætli gærkvöldið dugi ekki til þess að ég taki VAR endanlega í sátt? Réttlætinu VAR fullnægt í þremur tilvikum í Meistaradeildinni í gærkvöld þar sem „Varsjáin“ úrskurðaði um vafaatriðin í leikjunum tveimur.
Jæja, ætli gærkvöldið dugi ekki til þess að ég taki VAR endanlega í sátt?

Réttlætinu VAR fullnægt í þremur tilvikum í Meistaradeildinni í gærkvöld þar sem „Varsjáin“ úrskurðaði um vafaatriðin í leikjunum tveimur.

Fyrsta mark Liverpool gegn Porto var löglegt þegar á reyndi, enda þótt allir virtust telja Sadio Mané rangstæðan þegar hann skoraði.

Fernando Llorente skoraði ekki með hendinni þegar hann gerði hið dýrmæta þriðja mark Tottenham gegn Manchester City.

Og á örlagastundu var Sergio Agüero rangstæður í aðdraganda fimmta marks Manchester City, sem hefði komið liðinu í undanúrslit á kostnað Tottenham.

Niðurstaðan er sú að einhver skemmtilegustu undanúrslit í Meistaradeildinni sem ég man eftir eru fram undan í vor.

Þar leikur Tottenham við Ajax og Liverpool við Barcelona. Fjögur flott lið og að auki erum við laus við allar peningamaskínurnar. Manchester City, Real Madrid og París SG.

Það er gott fyrir fótboltann sem íþrótt að þessi þrjú lið skuli ekki vera hópi þeirra fjögurra liða sem geta orðið Evrópumeistarar í ár. Skilaboðin eru þau að það er ekki alltaf hægt að kaupa allt.

Einvígi Liverpool og Barcelona verður án efa magnað og framganga Ajax er kannski það skemmtilegasta við keppnina í ár. Þeir sem slá út bæði Real Madrid og Juventus eru engir aukvisar.