Sigurður Magnússon fæddist 1. júlí 1930. Hann lést 6. apríl 2019.

Sigurður var jarðsunginn 13. apríl 2019.

Ég sendi þér kæra

kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(ÞS)

Megir þú hvíla í friði, elsku pabbi.

Þín

Björk.

Elsku afi minn.

Þegar ég hugsa til baka þá er margt sem kemur upp í huga minn.

Í mínum huga ertu góður, ljúfur, einlægur, fróður og klárlega algjör fyrirmynd, með hjarta úr gulli. Ég minnist tímanna í Bláskógum þar sem þú kenndir mér að fara á hestbak, keyra jeppann þinn þrátt fyrir glæfralegan akstur og fá að taka rúnt með þér í vörubílnum, það var toppurinn.

Alltaf hlýjar móttökur og ekki má gleyma öllu bakkelsinu hjá þér og ömmu Möggu. Öll samtölin sem við áttum, einlæg og falleg. Alltaf hægt að tala um allt við þig.

Takk, elsku afi minn, fyrir að vera alltaf til staðar, fyrir ástina og umhyggjuna sem þú gafst mér og börnunum mínum.

Endalaus ást til þín.

Inga Valdís og börn.