Athvarf Frú Ragnheiður er eitt úrræðanna sem fíklar í neyslu geta nýtt sér til að gæta að heilsu sinni. Þar má fá hreinar nálar, sprautur og smokka.
Athvarf Frú Ragnheiður er eitt úrræðanna sem fíklar í neyslu geta nýtt sér til að gæta að heilsu sinni. Þar má fá hreinar nálar, sprautur og smokka. — Morgunblaðið/Ómar
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Staðir þar sem fíklar geta nálgast hreinar sprautunálar og aðra þjónustu eru ekki undir sérstöku eftirliti lögreglu, en eru þó „enginn griðastaður“ hvað eftirlit laga og reglna varðar.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Staðir þar sem fíklar geta nálgast hreinar sprautunálar og aðra þjónustu eru ekki undir sérstöku eftirliti lögreglu, en eru þó „enginn griðastaður“ hvað eftirlit laga og reglna varðar.

Nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými fyrir sprautufíkla er til umsagnar hjá Alþingi. Meðal annars er fyrirhugað að koma upp „refsilausum svæðum“ í grennd við neyslurýmin. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skilaði inn harðorðri umsögn um útfærslu hugmyndarinnar í refsiréttar- og réttarfarslegu tilliti. Fram kemur m.a. að í frumvarpinu birtist þekkingarleysi á skyldu lögreglu til að grípa til ráðstafana þegar hún hefur afskipti af einstaklingum með fíkniefni í sinni vörslu. Lögregla hafi ekki val um það hvort og hvernig hún bregðist við. Tekið er fram að lögregla leggist þó ekki gegn skaðaminnkandi úrræðum og neyslurýmum fyrir fíkla, sem slíkum.

„Það er af nógu að taka“

Spurður hvernig lagaskyldur lögreglunnar rími við rekstur þeirra úrræða sem fyrir eru, hvort lögregla vakti þá staði sérstaklega og hvort þar vakni oft grunur um neyslu eða vörslu segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að lögregla hafi ekki elst sérstaklega við þá skjólstæðinga sem leita þessara úrræða. „Þeir sem eru óeinkennisklæddir úti að fiska fylgja eftir vísbendingum og ná fólki hér, þar og alls staðar. Hvort sem fólk er að fara að skipta um nál eða er búið að skipta um nál, þá hefur það ekkert með það að gera að fólk sé með vörsluskammta á sér. Við höfum ekki setið um þetta fólk sérstaklega,“ segir hann. Aðspurður segir hann að úrræði á borð við Frú Ragnheiði séu ekki látin afskiptalaus.

„Engin fyrirmæli hafa verið gefin um það. Við hleypum ekki ákveðnum hópum yfir á rauðu,“ segir Jóhann og bætir því við að lögreglumenn geti brotið af sér í starfi, hafi þeir ekki afskipti af refsiverðri háttsemi. „Þetta er enginn griðastaður frá sjónarhóli lögreglunnar. Það getur alveg komið upp að við sitjum fyrir einhverjum þaðan. Það er aftur á móti af nógu að taka og við sitjum frekar um sölumenn heldur en neytendur. Við einblínum á það,“ segir hann.

Varsla fíkniefna er refsiverð hér á landi, en ekki neysla. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu koma upp um 950 neyslumál árlega þar sem haldlögð eru fíkniefni sem ekki eru í söluskyni. 30-40% málanna enda í sektarmeðferð.

Jóhann Karl segir að í flestum tilfellum finnist fíkniefnin við afskipti af öðrum ástæðum, t.d. við handtöku vegna aksturs undir áhrifum, líkamsárása eða innbrota. Þá sé ávallt leitað á þeim sem eru í fangageymslum lögreglu. „Það er allur gangur á þessu og yfirleitt er þetta fylgifiskur annarra afskipta,“ segir hann. Sem dæmi um önnur tilvik þar sem neysluskammtar finnast má nefna þegar lögregla annast sérstakt eftirlit, t.d. á tónlistarhátíðum á borð við Secret Solstice og Sónar Reykjavík.