Magnús Georg Siguroddsson fæddist 1. desember 1941. Hann lést 9. apríl, 2019.

Útför Magnúsar Georgs fór fram 16. apríl 2019.

„Þannig týnist tíminn.“ Hugsanir sem þessar koma í hugann þegar samferðafólk kveður eftir langa samleið.

Leiðir okkar hjóna og Rúnu og Magga lágu saman frá því þeir hófu nám í tæknifræði fyrst hér heima og síðan var haldið til frekara náms til Danmerkur.

Þar myndaðist traustur vinahópur sem hefur haldið. Á þessum tíma voru engir námsmenn með síma eða bíla og var Maggi ólatur að bruna á vespunni þegar á þurfti að halda að koma boðum á milli.

Vespan var lúxusfarartæki þess tíma og fórum við í langferð með þeim hjónum á Himmelbjerget á slíkum farartækjum.

Mörg okkar voru að stofna fjölskyldur og enn aðrir einhleypir. Þetta var upp til hópa glaðvær og kátur hópur.

Við deildum hátíðisdögum og urðum eins og lítil fjölskylda. Eignuðumst börn og voru þau skírð saman.

Eftir að heim var komið höfum við átt margar góðar stundir saman sem við þökkum fyrir og alla vináttu í gegnum árin.

Hópurinn okkar hefur þynnst nokkuð í gegnum árin og nú kveðjum við Magga með söknuði um leið og við minnumst þeirra sem hafa kvatt okkur.

Elsku Rúna, Guðrún Anna, Fanney, Ragnheiður Hrefna og fjölskyldur, innilegustu samúðarkveðjur.

Við kveðjum jákvæðan og hressan vin.

Vala og Gestur.