Þorvaldur Kristinn Friðriksson Hafberg fæddist 19. júlí 1932. Hann lést 30. mars 2019.

Útförin fór fram 16. apríl 2019.

Þorvaldur afi er dáinn.

Hann var alltaf svo blíður og góður við mig þegar ég var lítill. Ég mun aldrei gleyma þeim góðu samverustundum sem við áttum saman á Sunnubrautinni. Þorvaldur afi var skemmtilegur og brosmildur, barngóður og myndarlegur maður.

Við hittumst síðastliðið haust og er ég þakklátur fyrir það.

Ég, ásamt konu minni og börnum, mun ávallt eiga góðar og hlýjar minningar um Þorvald afa.

Með saknaðarkveðju frá Noregi,

Svavar og fjölskylda.

Góður vinur og samstarfsmaður til margra ára, Þorvaldur Hafberg, er fallinn frá 86 ára að aldri.

Okkar fundum bar fyrst saman þegar ég var í sveit í Síðumúla í Borgarfirði hjá þeim ágætu hjónum Ingibjörgu Guðmundsdóttur og Andrési Eyjólfssyni.

Yngsta barn þeirra hjóna, Adda, og Þorvaldur höfðu kynnst í Héraðsskólanum í Reykholti og fellt hugi saman. Var Þorvaldur þá nýfluttur í Síðumúla, glæsilegur og geðfelldur og virtist allt leika í höndum hans. Unnu þau bæði við búskapinn og að nokkrum misserum liðnum tóku þau við búinu.

Ári síðar ákváðu þau að flytja suður til annarra starfa og tóku bræður Öddu, Eyjólfur og Magnús, við búsforráðum í Síðumúla og keyptu jörðina.

Ég minnist með hlýju þeirra sumra sem ég var í Síðumúla og þess góða fólks sem þar var og bjó og er Þorvaldur þar engin undantekning.

Heimilið í Síðumúla var stórt og gestkvæmt enda lá það í þjóðleið og var gestrisni viðbrugðið.

Þótt aldrei hafi sambandið við Þorvald slitnað liðu mörg ár þar til leiðir okkar lágu saman fyrir alvöru. Þorvaldur hafði frá því hann hvarf til starfa fyrir sunnan tekið sér ýmislegt fyrir hendur, m.a. starfað á Keflavíkurflugvelli, lært rafvirkjun og aflað sér meistararéttinda í þeirri grein, stundað útgerð og verkstjórn hjá Landleiðum.

Árið 1973 réðst hann sem útgerðarstjóri hjá Ísbirninum hf. í Reykjavík, sem gerði á þessum árum út báta og togara. Kom sér vel hversu Þorvaldur var vel að sér um allt sem laut að útgerð og sjómennsku. Var í mörg horn að líta og á stundum jafnvel sólarhringurinn undir. Störf sín leysti Þorvaldur ávallt vel af hendi og af trúmennsku.

Þau Adda skildu á þessum árum og giftist hann síðar Nonní Björnsdóttur, en hún lést árið 2009.

Að lokum þakka ég Þorvaldi einlæga vináttu og gott samstarf.

Ég votta börnum, barnabörnum og öðrum aðstandendum innilega samúð.

Blessuð sé minning Þorvaldar Hafbergs.

Jón Ingvarsson.