Sigló Siglufjörður er vinsæll tökustaður.
Sigló Siglufjörður er vinsæll tökustaður. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Fyrir nokkru horfði ég á myndina 22. júlí á Netflix, en þar er fjallað um voðaverkin í Noregi árið 2011. Ekki finnst manni langt síðan þessir atburðir áttu sér stað og var þolinmæði kvikmyndagerðarmanna með minnsta móti í þessu tilfelli.

Fyrir nokkru horfði ég á myndina 22. júlí á Netflix, en þar er fjallað um voðaverkin í Noregi árið 2011. Ekki finnst manni langt síðan þessir atburðir áttu sér stað og var þolinmæði kvikmyndagerðarmanna með minnsta móti í þessu tilfelli.

Myndin er á ensku en ekki norsku þótt allir aðilar málsins séu Norðmenn. Mér finnst síðra þegar myndir eru á ensku en eiga að gerast í löndum þar sem enskan er ekki fyrsta tungumál. Tala nú ekki um þegar umfjöllunarefnið eru sannsögulegir atburðir. Við slíkar aðstæður er gjarnan töluð enska í þeim bíómyndum en með hreim heimamanna. Er mér fyrirmunað að skilja hvernig það á að bæta úr.

Ein sögupersóna myndarinnar býr á Svalbarða og fer þangað eftir hildarleikinn. Kvikmyndagerðarmennirnir voru mjög afslappaðir gagnvart því að afmá skiltin á „Svalbarða“. Mátti þar sjá „Ráðhús“ skrifað á íslensku utan á einni byggingunni og „Siglufjarðarheiði“ á einu umferðarskiltinu. Nokkuð heimilislegt fyrir Íslendinga.

Þeir sem ekki fá nóg af Lækna-Tómasi í fjölmiðlum fá glaðning í myndinni. Læknir á sjúkrahúsi í Ósló er að sjálfsögðu leikinn af Tómasi Guðbjartssyni. Nærtækt að fá bara fagmann í verkið sem ekki hræðist athyglina.

Kristján Jónsson