[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Keflavík Skúli B. Sigurðsson skulibsig@mbl.is Keflavík tryggði sig í úrslitaeinvígið í Dominos-deild kvenna í körfubolta í gærkvöldi þegar liðið hafði sigur í oddaleik gegn Stjörnunni.

Í Keflavík

Skúli B. Sigurðsson

skulibsig@mbl.is

Keflavík tryggði sig í úrslitaeinvígið í Dominos-deild kvenna í körfubolta í gærkvöldi þegar liðið hafði sigur í oddaleik gegn Stjörnunni. 85:69 varð lokastaða kvöldsins, stórsigur Keflavíkur en gefur alls ekki rétta mynd af leiknum í heild sinni sem var jafn að megninu til en Keflavík leiddi í hálfleik með 6 stigum.

Á heildina litið fannst manni Keflavíkurkonur einhvern veginn alltaf í meira jafnvægi í leiknum og meira stemmdar í leiknum. Þær spiluðu gríðarlega góðan liðsbolta sem skilaði þeim auðveldum körfum á köflum. Þegar síðasti leikhluti hófst var jafnt á flestum tölum og beið maður eftir naglbít af leik það sem eftir lifði. En Keflavík skoraði 26 stig gegn aðeins 14 stigum Stjörnunar í þeim leikhluta og þar lá sigurinn.

Kænska þjálfara Keflavíkur

Jón Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var augljóslega með leikáætlun sem fólst í því að nýta leikmenn liðs síns til fullnustu. Lykilleikmenn fengu að hvíla vel inn í fjórða leikhluta og komu svo inn á ferskir og kláruðu vel. Jón fær fullt hús stiga fyrir þessa kænsku, sér í lagi þar sem hún gekk svo vel upp. Stjörnukonur glímdu við ýmis vandamál þetta kvöldið þótt vissulega hafi þær spilað vel og velgt Keflavík undir uggum á löngum köflum. Jóhanna Sveinsdóttir, baráttuhundur þeirra, lenti snemma í villuvandræðum og náði aldrei að beita sér að fullu eftir það. Danielle Rodriguez, leikmaður þeirra, er einstakur og dró vagninn hjá liðinu sem fyrr. Hennar framlag var risavaxið í gær en það dugði hins vegar ekki til. „Þriðja árið mitt á Íslandi og ég veit ekki hvað verður næst. Ég fer heim og hvíli mig allavega,“ sagði Danielle eftir leik.

Kvennalið Keflavíkur er stolt klúbbsins í körfuboltanum og 29 meistarabúningar í rjáfri íþróttahúss þeirra er til merkis um það. Mikil saga og enn og aftur er liðið komið í úrslitaeinvígið. En að þessu sinni mæta þær til leiks sem svokallaðir „undirhundar“, eða það lið sem er ólíklegra til sigurs ef tekið er mið af lokastöðu deildarinnar. Óvenjulegt fyrir liðið en verkefnið verðugt. Feiknasterkt lið Vals hefur varla stigið feilspor síðan Helena Sverrisdóttir bættist í hóp liðsins. Keflavík hefur ekki náð að sigra liðið eftir áramót í þeim tveimur leikjum sem liðin mættust í. Fróðlegt einvígi sem er í vændum svo ekki sé meira sagt.

Keflavík – Stjarnan 85:69

Blue-höllin, undanúrslit kvenna, oddaleikur, miðvikudag 17. apríl 2019.

Gangur leiksins : 5:2, 9:6, 19:15, 25:21 , 27:27, 32:27, 39:31, 41:35 , 43:39, 49:49, 53:52, 57:55 , 61:59, 69:62, 74:65, 85:69 .

Keflavík: Brittanny Dinkins 19/18 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Bryndís Guðmundsdóttir 19/6 fráköst/5 stoðsendingar, Birna Valgerður Benónýsdóttir 13, Sara Rún Hinriksdóttir 8/11 fráköst/5 stoðsendingar, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 7/4 fráköst, Irena Sól Jónsdóttir 6, Katla Rún Garðarsdóttir 5, Þóranna Kika Hodge-Carr 4/6 fráköst, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 4.

Fráköst: 38 í vörn, 17 í sókn.

Stjarnan: Danielle Rodriguez 31/10 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Veronika Dzhikova 17/7 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 7/7 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 6/5 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 6, Sólrún Sæmundsdóttir 2.

Fráköst: 21 í vörn, 10 í sókn.

Áhorfendur : 178.

*Keflavík sigraði 3:2.