Björn Bjarnason
Björn Bjarnason
Eftir Björn Bjarnason: "Þörf er á meiri umræðum á stjórnmálavettvangi um strenginn, eignarhald á orkulindum og alþjóðaþróun."

Hér ber þann boðskap hátt að fyrir stjórnvöldum vaki að afhenda Evrópusambandinu ráð yfir orkulindum landsins. Ekkert slíkt er þó á döfinni. Á hinn bóginn hefur innleiðing svonefnds orkupakka þrjú sem hluta af EES-samstarfinu verið túlkuð á þennan sérkennilega hátt.

Nokkur þáttaskil urðu þó í umræðunum eftir samþykkt ríkisstjórnarinnar 22. mars þar sem áréttað er að orkupakkinn kallar aðeins á lagabreytingu varðandi aukið sjálfstæði Orkustofnunar sem eftirlitsaðila í þágu neytenda. Þó láta sumir enn eins og um framsal valds til fagstofnunar ESB, ACER, sé að ræða.

Þá er það tillaga ríkisstjórnarinnar að verði ákvörðun tekin um að ráðast í lagningu sæstrengs til að flytja raforku héðan til Bretlands eða annarra landa skuli alþingi samþykkja það með lögum.

Þeim sem hafa staðið utan umræðna um orkumál koma hatrammar deilur um sæstrenginn og eignarhald á orkufyrirtækjum á óvart. Að óreyndu hefði mátt ætla, eftir margra ára athuganir, að rökstudd sátt ríkti um þessa grunnþætti í stefnu Íslands í orkumálum.

Á vefsíðu Landsvirkjunar er að finna ítarlegar upplýsingar um rannsóknir vegna hugsanlegs sæstrengs héðan til Bretlands. Upplýsingarnar sýna að ekkert hefur verið gert af opinberri hálfu varðandi sæstreng síðan árið 2016. Þegar rætt er um framtíð verkefnisins segir meðal annars:

„Talið er að það taki um fimm ár að klára nauðsynlegar rannsóknir og undirbúningsvinnu í sambandi við lagningu strengsins. Að því loknu verður hægt að taka endanlega ákvörðun um hvort af verkefninu verður. Ef tekin verður ákvörðun um slíkt mun það taka fimm til sex ár að framleiða og leggja strenginn og reisa landstöðvar, háspennulínur og fleira.“

Sæstrengur er með öðrum orðum ekkert sem menn hrista fram úr erminni. Þarna er talað um allt að 12 ára undirbúnings- og framkvæmdatíma vegna strengsins. Þriðji orkupakkinn hefur verið til afgreiðslu í íslenska stjórnkerfinu síðan 2010. Gengi allt eins og smurð vél frá 2020 vegna strengsins yrði hann kannski tengdur árið 2032. Að líkindum yrði þessi tími töluvert lengri.

Þörf er á meiri umræðum á stjórnmálavettvangi um strenginn, eignarhald á orkulindum og alþjóðaþróun. Þessi spurning er áleitin: Á að spyrja þjóðina hvort hún vilji rafstreng til annarra landa? Þá yrði sá þáttur málsins ræddur til hlítar. Þriðji orkupakkinn er hins vegar tilbúinn til afgreiðslu núna, enda þaulræddur.

Þróun hælismála

Samtökin No Borders sem berjast gegn landamærum og hafa sérstaklega horn í síðu reglna um brottvísun ólöglegra innflytjenda láta nú að sér kveða á nýjan leik. Fulltrúar þeirra sitja reglulega fyrir fólki í anddyri dómsmálaráðuneytisins.

Borgaryfirvöld leyfðu hælisleitendum og No Borders að reisa tjald og gista á Austurvelli í nokkrar nætur til að árétta kröfur sínar. Var styttan af Jóni Sigurðssyni notuð sem snagi undir mótmælaspjöld.

Fyrstu þrjá mánuði þessa árs leituðu 223 einstaklingar hælis eða alþjóðlegrar verndar hér á landi, á sama tíma í fyrra stóðu 138 í þessum sporum en árið 2017 voru þeir 226.

Ferðir hælisleitenda eru sjaldan óskipulagðar. Oftast hafa þeir notið aðstoðar einhverra sem þiggja greiðslu fyrir að leiðbeina þeim. Veittar eru upplýsingar um hvert best sé að leita og hvernig best sé að ná árangri á áfangastað.

Barátta No Borders við íslensk stjórnvöld snýst um betri aðbúnað og þjónustu fyrir hælisleitendur. Fjölgun þeirra á þessu ári fellur að markmiðum No Borders.

Viðbrögð dómsmálaráðherra

Vegna þessarar þróunar hefur dómsmálaráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nú flutt frumvarp um breytingar á útlendingalögunum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að nú bíði rúmlega 600 einstaklingar sem þiggja þjónustu á biðtímanum úrlausnar sinna mála eða endursendingar til annars ríkis. Stjórnsýslan ráði ekki við að afgreiða umsóknir innan ásættanlegs tíma og kostnaður við framfærslu umsækjenda um alþjóðlega vernd vaxi hröðum skrefum. Þarna er um að ræða marga milljarða króna sem velt er yfir á skattgreiðendur.

Skýringin á þessari fjölgun er sögð tvíþætt: „Í fyrsta lagi hefur fjölgað nokkuð í hópi þeirra sem hingað leita eftir vernd frá stríðshrjáðum löndum, ekki síst Írak og Afganistan. Í öðru lagi hefur þeim sem sækja hér um alþjóðlega vernd fjölgað umtalsvert á ný þrátt fyrir að vera ekki á flótta undan ofsóknum í sínu upprunaríki.“

Þeir sem mynda síðari hópinn eru fólk frá öruggu ríki sem nýtur félagslegrar aðstoðar á meðan komist er að niðurstöðu um afgreiðslu bersýnilega tilhæfulausrar umsóknar þess. Þá er í hópnum fólk sem ber lögum samkvæmt að sækja um hæli í öðru ríki eða hefur ef til vill gert það en kýs samt að koma hingað. Loks er þarna fólk sem þegar hefur fengið stöðu flóttamanns í Evrópu en ákveður af einhverjum ástæðum að sækja líka hér um hæli.

Í frumvarpinu sem liggur fyrir alþingi núna er enn gerð tilraun til að einfalda regluverkið í kringum tilhæfulausar umsóknir og stytta þar með dvöl umsækjenda á kostnað skattgreiðenda hér á landi.

Átök í Kaupmannahöfn

Danskir stjórnmálamenn ræða opið um vandann vegna hælisleitenda. Jafnaðarmannaflokkurinn hefur aukið fylgi sitt frá því að hann tók að nálgast harða útlendingastefnu Danska þjóðarflokksins. Hér á landi mega Samfylkingin eða aðrir vinstrisinnar ekki heyra á slíkt minnst – þvert á móti.

Í dönsku samfélagi ríkir nokkur spenna vegna útlendingamálanna. Það kom til dæmis til harðra átaka sunnudaginn 14. apríl á Norðurbrú í Kaupmannahöfn.

Dönsk yfirvöld hafa á rúmu ári greitt 24 milljónir króna (um 450 m. ísl. kr.) til að verja lögfræðinginn Rasmus Paludan sem berst af hörku gegn múslimum. Í óeirðunum á sunnudaginn beitti lögreglan táragasi og handtók 23 eftir að Paludan kastaði Kóraninum í loft upp og lét hann falla til jarðar á Blágarðstorgi.

Frá því í fyrra hefur Paludan efnt til 70 mótmæla. Hann heldur úti flokknum Stram kurs, Stífri stefnu, sem fékk 923 atkvæði í sveitarstjórnakosningum árið 2017. Þeir sem tala máli hans á stjórnmálavettvangi segja að ekki sé við Paludan að sakast vegna löggæslukostnaðar heldur þá sem veita honum ekki svigrúm til að mótmæla. Gegn þeim verði lögreglan að láta að sér kveða.

Átökin í Kaupmannahöfn eru aðeins ein birtingarmynd vandans sem skapast í útlendingamálum raskist eðlilegt jafnvægi. Ástæða er til að velta fyrir sér hvort mótmælin á Austurvelli og mótmælasetan í dómsmálaráðuneytinu séu ekki einmitt til marks um slíka röskun hér á landi og þess vegna sé tímabært að alþingi samþykki nýtt frumvarp dómsmálaráðherra.

Höfundur er fv. ráðherra.

Höf.: Björn Bjarnason