Verslunargata Stefnt er að því að gera Laugaveg að göngugötu.
Verslunargata Stefnt er að því að gera Laugaveg að göngugötu. — Morgunblaðið/Hari
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Það hefur alltaf komið upp háreysti þegar verslunargötum með bílaumferð er breytt í göngugötur, en það hefur aftur á móti sýnt sig í hverri einustu borg þar sem það hefur verið gert að menn vilja ekki snúa aftur til fyrra horfs,“ segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.

Greint var frá því hér í Morgunblaðinu í gær að kaupmenn við Laugaveg í miðbæ Reykjavíkur eru margir hverjir ósáttir við þau áform Reykjavíkurborgar að gera Laugaveg að göngugötu árið um kring. Sögðu þeir borgina ekki hlusta á áhyggjur þeirra af minnkandi sölu samhliða minni bílaumferð, en að sögn þeirra sem rætt var við dróst sala saman við sumarlokun.

Líf segir erfitt að tengja sumarlokun á Laugavegi með beinum hætti við samdrátt í sölu einstakra verslana. „Verslun í heiminum er að breytast og það er mjög erfitt að kenna sumargöngugötum um samdrátt í verslun,“ segir hún. „Við eigum enn eftir að útfæra þessar breytingar nánar og það verður áfram unnið í samráði við alla aðila.“

Nútímaleg þróun borgar

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, segir Reykjavík verða að þora að stíga skref í átt að nútímalegri breytingum til að standast samkeppni við aðrar borgir.

„Netverslun er að veita mikla samkeppni og verslun og borgaryfirvöld verða að svara kallinu og bjóða upp á einhverja aðra upplifun sem netverslun getur ekki boðið upp á. Verslun og viðskipti aukast með því að fjarlægja bílaumferð, en sem dæmi má nefna að verslun í New York jókst um 22% með göngugötum og í Lundúnum um 25%,“ segir hún og bætir við að kannanir sýni að gangandi og hjólandi fólk versli meira en þeir sem akandi eru.

„Með því að koma til móts við þennan hóp má skapa betra verslunarumhverfi og koma til móts við þessar áskoranir,“ segir hún og bætir við: „Háværustu raddirnar í þessu máli eru ekki endilega þær fjölmennustu, en þeir sem eru jákvæðir fyrir þessari breytingu hafa ekki látið eins mikið í sér heyra. Samráðsferlið hefur verið til mikillar fyrirmyndar og í raun sjaldan verið lögð álíka mikil áhersla á samráð og einmitt nú.“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, tekur í svipaðan streng og segir vinnuna í „ágætisferli“.

„Það er búið að vera mikið samráð, samtal og hugmyndavinna,“ segir hún og bætir við að verslunarmenn og heildsalar hafi t.a.m. komið að þeirri vinnu. „Þetta hefur staðið yfir í marga mánuði og gengið ágætlega að mínu mati. [...] Alls staðar í kringum okkur hefur verslun eflst við tilkomu göngugatna og það er engin ástæða til að ætla annars en að Reykjavík verði einnig í þeim hópi.“

Ekki hægt að hundsa þá

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir hins vegar stefnu flokksins að ákvarðanir sem þessar séu gerðar í samráði við þá sem málið varðar og sjálfstæðismenn hafi fengið það í gegn að ekki yrði ráðist í lokunina án þess að þeir sem málið varðaði gætu komið skoðun sinni á framfæri.

Eyþór segir að ekki sé hægt að hundsa þær undirskriftir rekstrar- og hagsmunaaðila sem leggist gegn lokuninni. „Ég held það verði að taka tillit til bæði rekstraraðila sem og annarra aðila eins og þeirra viðskiptavina sem þurfa aðgengi með bílum,“ segir Eyþór og bætir við að núverandi meirihlutaflokkum verði oft tíðrætt um samráð, en gleymi því svo þegar til kastanna kemur.

Eyþór tekur ekki undir þá fullyrðingu að aukin netverslun sé að veita Laugaveginum samkeppni. „Laugavegurinn er miklu frekar í samkeppni við Kringluna, Smáralind og Hafnartorg þó að auðvitað sé einnig samkeppni við netverslun.“ Það skiptir því máli hvernig búið sé að verslununum og nefnir Eyþór fasteignagjöld sem dæmi. „Þau eru búin að fara illa með marga rekstraraðila, hvort sem þeir eiga eða leigja. Þau hækkuðu svívirðilega milli ára í Reykjavík, um 15% að jafnaði og svo er aðgengið.“

„Síðast en ekki síst er mjög leiðinlegt að rekstraraðilar og íbúar séu í stríði við borgaryfirvöld, það er mjög neikvæð umræða fyrir svæðið og það ætti ekki að þurfa að koma til rifrildis í fjölmiðlum, það ætti að vera hægt að ræða þetta eins og hefur tekist t.d. í verslunarmiðstöðvunum,“ segir Eyþór Arnalds.