Spenna Edda Björg Ásgeirsdóttir slær boltann yfir netið í leik HK og KA en til varnar er Helena Kristín Gunnarsdóttir.
Spenna Edda Björg Ásgeirsdóttir slær boltann yfir netið í leik HK og KA en til varnar er Helena Kristín Gunnarsdóttir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
HK tryggði sér oddaleik í einvígi sínu gegn KA um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki en HK vann 3:1-sigur gegn KA í háspennuleik í Fragralundi í Kópavogi í gær.

HK tryggði sér oddaleik í einvígi sínu gegn KA um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki en HK vann 3:1-sigur gegn KA í háspennuleik í Fragralundi í Kópavogi í gær. Þetta var fjórði leikur liðanna í baráttu sinni um Íslandsmeistaratitilinn og er staðan í einvíginu nú 2:2.

Kópavogsliðið byrjaði leikinn af miklum krafti og Akureyringar virkuðu stressaðir. KA-stúlkur voru að klikka á uppgjöfum og HK gekk á lagi og vann fyrstu hrinu 25:21. Meiri spenna var í annarri hrinu þar sem HK fagnaði sigri, 25:23. KA kom til baka í þriðju hrinu og vann sannfærandi, 25:23. Í fjórðu hrinu var allt í járnum og liðin skiptust á að leiða. Svo fór að lokum að HK vann, 26:24 eftir upphækkun, og HK fagnaði sigri.

HK stúlkur lentu 2:0-undir í einvíginu og voru komnar upp við vegg en þeim hefur nú tekist að jafna metin í 2:2. Oddaleikur liðanna fer fram á Akureyri 24. apríl og þá ræðst hvort liðið verður Íslandsmeistari. bjarnih@mbl.is