Alltaf er hætta á að eldur kvikni í sögufrægum byggingum eins og Notre-Dame í París, einkum þegar viðgerðir standa yfir, og þótt hægt sé að minnka líkurnar á eldsvoða er aldrei hægt að uppræta eldhættuna, að sögn eldvarnasérfræðinga.

Alltaf er hætta á að eldur kvikni í sögufrægum byggingum eins og Notre-Dame í París, einkum þegar viðgerðir standa yfir, og þótt hægt sé að minnka líkurnar á eldsvoða er aldrei hægt að uppræta eldhættuna, að sögn eldvarnasérfræðinga.

Guillermo Rein, breskur prófessor í eldvörnum, segir að koma þurfi upp nútímaeldvörnum í Notre-Dame þegar kirkjan verður endurreist. „Þakið á kirkjunni var alls ekkert verndað,“ hefur fréttavefur breska ríkisútvarpsins eftir Rein. Bob Parkin, breskur eldvarnasérfræðingur, segir að tiltölulega auðvelt sé að fyrirbyggja eldsvoða með því að koma upp úðakerfi í gömlum byggingum.

Yfirvöld á Spáni og í fleiri löndum hafa skýrt frá því að eldvarnir í kirkjum og fleiri sögufrægum byggingum verði endurskoðaðar í ljósi brunans í dómkirkjunni í París. Peter Aiers, framkvæmdastjóri breskrar stofnunar sem komið var á fót til að vernda gamlar kirkjur á Englandi, segir að ýmislegt sé hægt að gera til að minnka eldhættuna í slíkum byggingum. „Það er þó ekki til nein töfralausn, það verður alltaf eldhætta,“ hefur The Wall Street Journal eftir honum.

Verði víti til varnaðar

José Guirao, menningarráðherra Spánar, sagði í útvarpsviðtali að sérstakur fundur yrði haldinn með sérfræðingum í næstu viku til að ræða breytingar á eldvörnum sögulega mikilvægra bygginga. „Þegar viðgerðir standa yfir þurfa menn að vera sérstaklega á varðbergi vegna þess að gáleysi eins manns getur leitt til hörmulegs atburðar. 100% öryggi er ekki til.“

Giuliana Gardani, ítalskur arkitekt og sérfræðingur í viðgerðum á gömlum byggingum, tekur í sama streng og kveðst vona að bruninn í Notre-Dame verði mönnum víti til varnaðar. „Það er sorglegt en stundum þarf eitthvað hræðilegt að gerast til að öryggisráðstafanir séu bættar.“ bogi@mbl.is