Bráðnun „Verkin myndast á um tólf klukkustunda tímabili þegar ísblokk bráðnar á pappír og blandast saman við járnlitaefni í duftformi og álagnir úr kvörninni sem ég nota,“ segir listamaðurinn Alistair Macintyre.
Bráðnun „Verkin myndast á um tólf klukkustunda tímabili þegar ísblokk bráðnar á pappír og blandast saman við járnlitaefni í duftformi og álagnir úr kvörninni sem ég nota,“ segir listamaðurinn Alistair Macintyre. — Morgunblaðið/Hari
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Í raun má lýsa verkunum sem smækkuðum afbrigðum af jarðfræðilegum breytingum á milljónföldum hraða miðað við náttúruna. Í mínum huga eru þetta þrívíðir skúlptúrar sem í sköpunarferlinu umbreytast í tvívíðar teikningar,“ segir Alistair Macintyre sem opnar myndlistarsýninguna Rofmáttur tímans – Time Frozen, Time Thawed í Galleríi Gróttu í dag kl. 17.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Í raun má lýsa verkunum sem smækkuðum afbrigðum af jarðfræðilegum breytingum á milljónföldum hraða miðað við náttúruna. Í mínum huga eru þetta þrívíðir skúlptúrar sem í sköpunarferlinu umbreytast í tvívíðar teikningar,“ segir Alistair Macintyre sem opnar myndlistarsýninguna Rofmáttur tímans – Time Frozen, Time Thawed í Galleríi Gróttu í dag kl. 17.

Um er að ræða áttundu einkasýningu Alistairs á Íslandi á síðustu 23 árum, en fyrstu einkasýninguna hélt hann í Gerðarsafni 1996 og þá síðustu í Ketilhúsinu 2010. Alistair sem fæddur er á Bretlandi og menntaður frá Listaháskólanum í Cardiff hefur verið íslenskur ríkisborgari frá 2009, en hann býr og starfar hérlendis.

Átök á pappírnum

„Sýningin er búin að vera lengi í mótun,“ segir Alistair og bendir á að mjög langan tíma taki að vinna hvert verk og því kalli ferlið á mikla þolinmæði. „Verkin myndast á um tólf klukkustunda tímabili þegar ísblokk bráðnar á pappír og blandast saman við járnlitaefni í duftformi og álagnir úr kvörninni sem ég nota. Járnduftið ryðgar með tímanum og framkallar hina ýmsu liti. Efnin berjast á þykkum pappírnum meðan ísinn er að bráðna og ég reyni mitt besta til að stýra ferlinu og stjórna hreyfingu vatnsins þannig að útkoman verði eins og ég vil hafa hana. Engu að síður ræður heppnin og örlögin miklu. Ef eitthvað fer úrskeiðis á lokamínútunum, til dæmis ef pappírinn bognar ranglega undan vatninu, getur margra vikna undirbúningsvinna hæglega farið í súginn,“ segir Alistair og tekur fram að ferlið við myndsköpunina minni sig iðulega á ljósmynd í framköllun sem birtist smám saman.

Aðspurður segir Alistair hvert verk geti verið vikur og jafnvel mánuði í vinnslu. „Það getur tekið margar vikur að undirbúa eitt verk, síðan þarf að sitja yfir pappírnum í bráðnunarferlinu og loks getur tekið allt að tvo mánuði fyrir pappírinn að þorna alveg. Sum verkanna þarf að vakta nánast allan sólarhringinn og því krefst þetta mikils úthalds,“ segir Alistair og tekur fram að hann hafi heillast af ísnum þegar hann dvaldi hér í vinnustofu yfir vetrarmánuðina fyrir nærri aldarfjórðungi. „Þetta var harður vetur og ég gat sótt mér klaka úti sem ég geymdi í frystinum og þróaði smám saman þessa tækni sem ég hef notað æ síðan,“ segir Alistair og tekur fram að hann viti ekki betur en að hann sé eini listamaðurinn í heiminum sem skapi listaverk sín með þessari aðferð. „Ég hélt að veturnir væru alltaf svona harðir hér á landi, en veðráttan er hverful og hefur breyst á umliðnum árum og áratugum,“ segir Alistair sem með tímanum hefur neyðst til að nota tilbúinn ís úr frystinum í stað náttúrulegs klaka sem hann finnur úti við.

Í leit að sannleika handan tíma

Spurður hvort túlka megi verk hans sem ádeilu á tímum loftlagsbreytinga þar sem vitað er að jöklar muni með tímanum bráðna og hverfa svarar Alistair að ekkert sé því til fyrirstöðu að horfa á verkin með þeim augum, enda geti túlkun verka breyst í samspili við breytta tíma. „Markmið mitt er samt ekki að skapa pólitísk verk. Í mínum augum eru verkin fyrst og fremst leið til að rýmka tímaskynjun okkar, fletja tímann út og komast handan hans og finna sannleikann sem þar leynist – en sú viðleitni hefur einkennt flestöll trúarbrögð í gegnum tíðina. Helsta ástæða þess hvað ég hef lengi verið heillaður af ísnum stafar af hverfulleika efnisins. Við eigum það sameiginlegt með ísnum að við eigum öll eftir að hverfa í tímans rás og fletjast út í jarðfræðilegum skilningi. Í þeim skilningi birtist ákveðinn tregatónn í verkum mínum. Þau eru til vitnis um eitthvað sem var,“ segir Alistair og tekur fram að birtan leiki lykilhlutverki í skynjun verkanna. „Birtan í Galleríi Gróttu er góð og hentar verkunum vel, en með réttri lýsingunni er líkt og verkin lifni við.“

Sýningin stendur til 2. júní og er opin á sama tíma og Bókasafn Seltjarnarness, þ.e. mánudaga til fimmtudaga, kl. 10-19, föstudaga kl. 10-17 og laugardaga kl. 11-14.