Heilahristingur Birna Berg er frá keppni um nokkurt skeið.
Heilahristingur Birna Berg er frá keppni um nokkurt skeið. — Morgunblaðið/Eggert
Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik, fékk högg á höfuðið um síðustu helgi í kappleik með þýska fyrstudeildarliðinu Neckarsulmer. Svo þungt var höggið að hún hlaut heilahristing.

Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona í handknattleik, fékk högg á höfuðið um síðustu helgi í kappleik með þýska fyrstudeildarliðinu Neckarsulmer. Svo þungt var höggið að hún hlaut heilahristing. Þar af leiðandi leikur hún ekki tvo síðustu leiki liðsins í deildarkeppninni. Aðdragandi höggsins var óvenjulegur. Birna hafði lokið við að taka vítakast í leiknum, sem hún skoraði úr, þegar hún sneri sér við til að hlaupa í vörnina þegar einn andstæðinga hennar lagði lykkju á leið sína og hljóp utan í Birnu auk þess sem svo virðist sem hún slái til hennar með olnboganum. Birna féll í gólfið og var síðan flutt á varamannabekkinn til frekari aðhlynningar.

„Tíu mínútum síðar kom ég inn af varamannabekknum til að taka annað vítakast. Ég man ekkert eftir því frekar en öðru sem gerðist í fyrri hálfleik. Í hálfleik var ég flutt á sjúkrahús,“ sagði Birna Berg í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Í ljós hefur komið að ég hlaut heilahristing og var auk þess bara heppin að hafa ekki kinnbeinsbrotnað til viðbótar,“ sagði Birna ennfremur en hún verður að hafa hægt um sig á næstunni meðan heilinn jafnar sig.

Engu er líkara en andstæðingurinn rekist viljandi utan í Birnu. „Fyrst trúði ég ekki að þetta væri viljaverk en núna er ég búin að horfa á þetta nokkrum sinnum og það er eitthvað skrítið við þetta. En ég bara trúi því ekki að einhver sé svona vondur að gera svona viljandi,“ sagði Birna sem segist enn vera í áfalli eftir að hafa séð myndbandið af atvikinu, en það er m.a. að finna á mbl.is.

Birna Berg gekk til liðs við Neckarsulmer í byrjun árs og hefur átt drjúgan þátt í að liðið hefur bjargað sér frá falli í 2. deild. iben@mbl.is