Skynsöm Ragga nagli lætur ekkert trufla sig við það að njóta matarins.
Skynsöm Ragga nagli lætur ekkert trufla sig við það að njóta matarins.
Ragga nagli segir að það sé mun heilsusamlegra að gefa sér góðan tíma í að borða heldur en að gúffa matnum í sig á stuttum tíma. Líkurnar á ofþyngd fari til að mynda minnkandi þar sem þeir sem borði á lengri tíma borði alla jafna minna en hinir.

Sálfræðingurinn og einkaþjálfarinn Ragnhildur Þórðardóttir eða Ragga nagli sem býr í Danmörku segir að flestir Danir eigi heilbrigðara samband við mat en Íslendingar. „Maður sér ekki fólk vel í holdum í Kaupmannahöfn þar sem ég bý,“ sagði hún meðal annars í áhugaverðu viðtali við Ísland vaknar á dögunum. Ástæðuna fyrir því telur hún vera þá að Danir séu afslappaðri, njóti hverrar máltíðar og gefi sér góðan tíma í að neyta hennar. „Sjálf gef ég mér klukkustund á hverjum degi í að borða. Þá slekk ég á símanum og er utan þjónustusvæðis því ég er að borða. Það skal ekkert trufla mig frá því að njóta matarins,“ sagði Ragga sem auk þess að vera sálfræðingur er einnig einkaþjálfari.

Ragga telur að margir séu ekki í tengslum við líkamleg einkenni svengdar og seddu þar sem þeir séu oft búnir að hrúga í sig of miklu magni af mat löngu áður en líkaminn gefur skilaboð um að hann sé orðinn saddur. Meðalmaðurinn er um 11 mínútur að borða matinn sinn að sögn Röggu sem er allt of stuttur tími að sögn Röggu. Meðalkarlmaðurinn getur verið mun sneggri að næra sig eða jafnvel um 5-6 mínútur.

Fyrir utan heilsubætandi áhrif þess að borða hægt segir Ragga að fólk geti jafnframt misst af nautninni sem fylgir því að borða góðan mat. Fólk fari á flottan veitingastað, panti sér dásamlega góðan mat, bíði eftirvæntingarfullt eftir að fá að borða og svo loks þegar maturinn kemur á borðið borði sumir á þeim hraða að þeir varla muni eftir að hafa neytt hans.

Ragga Nagli kemur annað slagið til Íslands í þeim tilgangi að bjóða upp á námskeið í þessum málum. Viðtalið við hana má nálgast á heimasíðu K100, www.k100.is

islandvaknar@islandvaknar.is