Reykjavík Risaskip siglir inn í Sundahöfnina í fylgd Magna.
Reykjavík Risaskip siglir inn í Sundahöfnina í fylgd Magna. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Hin árlega vertíð skemmtiferðaskipanna til Reykjavíkur hefst fyrir alvöru í dag, fimmtudaginn 9. maí. Eitt af stærri skipum sumarsins, Celebrity Reflection, er væntanlegt að Skarfabakka í Sundahöfn klukkan 13. Skipið er 125.366 brúttótonn og tekur 3.046 farþega.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Hin árlega vertíð skemmtiferðaskipanna til Reykjavíkur hefst fyrir alvöru í dag, fimmtudaginn 9. maí. Eitt af stærri skipum sumarsins, Celebrity Reflection, er væntanlegt að Skarfabakka í Sundahöfn klukkan 13. Skipið er 125.366 brúttótonn og tekur 3.046 farþega.

Síðan koma skipin hvert af öðru og það síðasta er væntanlegt til Reykjavíkur sunnudaginn 29. október. Reyndar þjófstartaði eitt skip um miðjan mars. Astoria hét það og hafði hér sólarhrings viðdvöl.

Árið í ár verður það stærsta hvað varðar skipakomur farþegaskipa og farþegafjölda hingað til lands. Alls eru áætlaðar 199 skipakomur 85 farþegaskipa til Faxaflóahafna (Reykjavík og Akranes) með 188.962 farþega.

Samanlagður fjöldi farþega og áhafna skipanna er 272.119. Áætluð fjölgun á skipakomum er rúmlega 24% milli ára og fjölgun farþega um rúmlega 23%. „Það má því segja að vægi Íslands sem viðkomustaðar fyrir farþegaskip sé að aukast og landið ásamt innviðum virðist standast væntingar,“ segir í frétt á heimasíðu Faxaflóahafna.

Aukningin er ævintýraleg

Árið 2018 voru skipakomur 152 og farþegar 144.658. Árið 2017 voru skipakomur 135 og farþegar 128.275. Árið 2001 komu 27.574 farþegar með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur. Á þessu tölum má sjá að aukningin það sem af er öldinni hefur verið ævintýraleg.

Sum skipanna koma margoft, til dæmis svokölluð leiðangursskip, sem eru í áætlunarferðum í kringum landið. Þannig mun skipið Ocean Diamond, sem Iceland Pro Cruises gerir út, koma í 16 skipti til hafnar í Reykjavík í sumar.

Stærsta skip sumarsins er væntanlegt 28. september. Það heitir MSC Meraviglia og er 171.598 brúttótonn. Farþegar eru 4.500 talsins og í áhöfn eru 2.000 manns.

Hinn 19. júlí er Queen Mary 2 væntanleg til Reykjavíkur. Skipið er 149.215 brúttótonn og 345 metra langt, það lengsta sem hingað hefur komið. Farþegar eru 2.620. Viking Sky, sem lenti í óveðri við Noregsstrendur í mars sl., er skráð með þrjár komur, þá fyrstu 8. júní.

Starfsmenn Faxaflóahafna hafa unnið hörðum höndum að undirbúningi vertíðarinnar og nú er allt tilbúið. Nýlega var haldinn hinn árlegi vorfundur Faxaflóahafna. Á fundinn voru boðaðir fulltrúar allra fyrirtækja sem koma að móttöku skemmtiferðaskipa. Þar var farið yfir komur skemmtiferðaskipa, fyrirkomulag á hafnarsvæðinu, öryggismál og viðbragðsáætlanir. Móttaka skipanna krefst mikils undirbúnings. Þess má geta að í sumar munu farþegar skipanna verða samtals 5.000 eða fleiri alls 13 daga.