Viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust um 10,4 milljarða á fyrsta ársfjórðungi miðað við 12,1 milljarð á sama tíma í fyrra. Mest munar um samdrátt í afkomu Arion banka sem versnar úr 1,9 milljörðum í 1 milljarð.

Viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust um 10,4 milljarða á fyrsta ársfjórðungi miðað við 12,1 milljarð á sama tíma í fyrra. Mest munar um samdrátt í afkomu Arion banka sem versnar úr 1,9 milljörðum í 1 milljarð. Íslandsbanki eykur hagnað sinn sem fer úr 2,1 milljarði í 2,6 milljarða. Landsbankinn skilar líkt og í fyrra langmestum hagnaði eða 6,8 milljörðum, samanborið við 8,1 milljarð á fyrsta fjórðungi 2018.

Arion banki og Íslandsbanki kynntu uppgjör sín fyrir fjórðunginn í gær en Landsbankinn hafði birt tölur sínar í liðinni viku.

Wikileaks og WOW air

Í uppgjöri Arion banka kemur fram að óreglulegir liðir hafi litað afkomuna verulega. Þannig hafði nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Wikileaks gegn Valitor, dótturfélagi bankans, mikil áhrif en þar var það dæmt til að greiða Wikileaks 1,2 milljarða í skaðabætur. Þá kemur einnig fram í uppgjörinu að það litist af gjaldþroti WOW air. Þannig aukist útlánatap bankans um 1,1 milljarð á fjórðungnum vegna þess og sömuleiðis hafi bankinn þurft að afskrifa 222 milljóna króna skuldabréfaeign sína á hendur félaginu. Arðsemi eigin fjár bankans reyndist 2,1% en hún hefði reynst 6,2% að Valitor undanskildu. Rekstrartekjur bankans jukust um 8% milli ára og námu 11,7 milljörðum króna. Þá jókst rekstrarkostnaður hans um tæpa 6,9 milljarða, um 2%.

Eigið fé bankans nam í lok fjórðungsins 193 milljörðum og hafði lækkað um 4% frá áramótum en bankinn greiddi á tímabilinu út arð sem nam 10 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall bankans var 21,3 í lok fjórðungsins.Rekstrartekjur Íslandsbanka námu 12,9 milljörðum á tímabilinu og jukust um 26,3%. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar um 4,5% og nam 8,3 milljörðum. Neikvæð áhrif af niðurfærslu lána námu 919 milljónum á fjórðungnum en hún hafði reynst jákvæð um 88 milljónir króna á fjórðungnum árið 2018.

Eigið fé Íslandsbanka nam 173,6 milljörðum í lok fyrsta fjórðungs, samanborið við 176,3 milljarða í lok árs 2018. Á aðalfundi í mars var samþykkt að greiða 5,3 milljarða í arð til hluthafa.

Eiginfjárhlutfall bankans var 20,9% í lok fjórðungsins en var 22,2% í lok árs 2018. ses@mbl.is