Hörður Einarsson var fæddur á Skriðufelli á Barðaströnd 26. desember 1923. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 27. apríl 2019.

Foreldrar Harðar voru Einar Ebenezersson, f. 1879 í Hvammi á Barðaströnd, d. 1952, og Guðríður Ásgeirsdóttir, f. 1883 á Melsnesi á Rauðasandi, d. 1961. Þau bjuggu á ýmsum bæjum á Barðaströnd, síðast á Brekkuvelli og voru oft kennd við þann bæ. Af fjórtán börnum þeirra komust ellefu til fullorðinsára. Þau Einar, Magnús, Guðrún Ásgerður, Bjarni Óskar, Svava, Númi Björgvin, Ármann, Ólafía Sigurrós, Þórður, Hörður og Búi Rafn. Öll eru nú látin.

Hörður giftist Steinunni Finnbogadóttur, f. 1924, d. 2016, ljósmóður, borgarfulltrúa og forstöðukonu dagvistunar Sjálfsbjargar.

Börn þeirra eru: Steinunn F., f. 1950, fyrri maður hennar var Atli S. Ingvarsson og síðari maður hennar Sigurður G. Sigurðsson. Einar G., f. 1951, maki hans er Ólöf Anna Ólafsdóttir, og Guðrún Alda, f. 1955, fyrri maður hennar var Maths Olaf Nesheim, d. 1981, og síðari maður hennar er Sigurður Þór Salvarsson. Barnabörn Harðar eru átta og barnabarnabörnin 15. Hörður og Steinunn skildu. Seinni kona Harðar var Sigríður Eymundsdóttur, f. 1930, d. 2009, þau skildu. Lífsförunautur Harðar til 14 ára var Gunnhildur Kristjánsdóttir, f. 1930, d. 2015.

Útför Harðar fer fram frá Áskirkju í dag, 9. maí 2019, klukkan 15.

Elsku pabbi, þú varst alltaf glæsilegur á velli, fallega klæddur, teinréttur og reffilegur. Hafðir mjög sterka nærveru og frá þér stafaði hlýju og góðvild sem laðaði fólk að þér. Þú varst réttsýnn og hafðir sterkar skoðanir á þjóðmálum.

Duglegur, starfsamur, listrænn og mjög hagur, það lék allt í höndunum á þér. Elskaðir að vera úti í náttúrunni, varst næmur á umhverfi þitt og einstaklega veðurglöggur. Lést ekki bugast, tókst mótlæti af miklu æðruleysi og fannst fljótlega nýjar leiðir.

Að lokinni starfsævi sem stýrimaður og skipstjóri fékkst þú þér lítinn bát og veiðistöng. Þegar þú gast ekki lengur ekið keyptir þú rafskutlu og hélst áfram gönguferðum í Sundahöfn og Grasagarðinum. Tókst sprengitöflur þegar þess þurfti og lést verkina ekki stoppa þig. Þú kunnir þá list að lifa í núinu allt til loka.

Þú vildir ekki flytja úr Jökulgrunni inn í aðalbyggingu Hrafnistu, fannst þú missa sjálfstæði og hélst að þú fengir færri heimsóknir, það var öðru nær. Ég man hvað þú varst stoltur þegar þú sagðir mér að starfsfólkinu fyndist svo gott að koma til þín, það væri svo hlýlegt hjá þér. Já, það var gott að koma til þín, fá smáknús, halda svo áfram eða horfa með þér á sjónvarpið – Attenborough, fréttirnar eða bara vera; orð voru ekki alltaf þörf eins og þú sagðir.

Náttúru- og dýralífsþættir voru þitt yndi og til að geta notið þeirra sem best fékkstu þér 65 tomma sjónvarp síðasta sumar. Sjórinn og náttúran í öllum sínum formum var órjúfanlegur hluti af þér.

Sem barn gast þú dundað þér einn úti heilu dagana sagðirðu mér. Stundum fannst þú sofandi milli þúfna þegar komið var að háttatíma.

Það var gaman að fara með þér í bíltúr niður að Sundahöfn eða gömlu höfninni og fá fræðslu um skipin, sjóinn og sjómennsku. Eða hitta þig á Kaffi Flóru, þú komst þangað á skutlunni, ég gangandi eða akandi. Minnisstæð er sigling á Hval 5 inn í Hvalfjörð þegar ég var 7-8 ára.

Ég var svo stolt af pabba mínum sem var stýrimaður á þessu skipi.

Á heimili okkar var málverk af Bolungarvík eftir þig, þú varst svo listrænn. Alls staðar þar sem þú starfaðir gaf efniviðurinn í kringum þig tilefni til listrænnar sköpunar. Þegar þú varst á hvalbátunum gerðir þú lampa og skartgripi úr hvalstönnum, á sanddæluskipunum gerðir þú listaverk úr kóröllum og í tengslum við stangveiðina og fluguhnýtingar urðu til nælur og eyrnalokkar.

Á Hrafnistu gafst tækifæri til að skera út í við og þeir eru ófáir sem eiga fallegu útskornu bakkana þína.

Þú áttir hugmyndina að Kúbuferðinni. Þið Gunnhildur voruð eins og ástfangnir unglingar, það geislaði af ykkur. Gunnhildur sem þú kynntist þegar þú fluttir á Jökulgrunn í þjónustuíbúð hjá Hrafnistu. Sagðir mér að þú værir búinn að eignast vin og allt í einu var alltaf á tali hjá þér. Þið lifðuð lífinu svo fallega saman. Voruð alltaf að gera eitthvað skemmtilegt. Fóruð til útlanda, ferðuðust um landið að ógleymdum veiðiferðunum.

Þú hafðir ríka réttlætiskennd og vildir að farið væri fram af sanngirni. Þegar þú fluttir í Jökulgrunn var allur lífeyririnn tekinn af þér og þú fékkst vasapeninga.

Þér var stórlega misboðið, fannst þér sýnt mikið virðingarleysi. Það var ekki spurning um að greiða fyrir kostnaðinn heldur að fá ekki neina kvittun. Fórst í útvarpsviðtal og talaðir við ráðherra til að mótmæla þessu.

Við börnin þín, ég, Einar og Guðrún Alda, eigum þér svo mikið að þakka, höfum svo margt lært af þér og átt svo margar yndisstundir með þér.

Takk fyrir allt, elsku pabbi, og það fordæmi sem þú sýndir með lífi þínu sem mun alltaf lifa með okkur.

Steinunn Harðardóttir,

Einar Harðarson og Guðrún Alda Harðardóttir.

Með fráfalli Harðar Einarssonar skipstjóra er mikill höfðingi og öðlingur genginn.

Ég var svo lánsamur að kynnast honum Herði tvisvar um dagana, ef svo má segja. Fyrst upp úr 1970 þegar ég sem menntaskólastrákur var svo heppinn að fá sumarpláss nokkur sumur, sem háseti á dæluskipinu Sandey, en Hörður var þar stýrimaður og skipstjóri í afleysingum. Þar kynntist ég honum sem yfirmanni og stjórnanda, röggsömum og reffilegum manni sem kom fram við undirmenn sína af vinsemd og virðingu.

Hörður var ekki margmáll við okkur strákana, en gaf sér þó af og til tíma til að tefla við okkur, og hafði jafnan sigur enda slyngur skákmaður.

Um það bil tíu árum síðar kynntist ég Herði aftur, en þá sem verðandi tengdaföður þegar ég og Guðrún Alda dóttir hans hófum sambúð og giftum okkur. Þá kynntist ég öðrum Herði, fjölskyldumanninum Herði, vingjarnlegum og viðræðugóðum manni sem sýndi mér og mínum aldrei annað en alúð og elskulegheit til hinsta dags.

Þá kynntist ég líka veiðimanninum og náttúruunnandanum Herði, en hann var ástríðufullur veiðimaður, enda alinn upp við matarkistuna Breiðafjörð þar sem veiðiskapur var stór hluti lífsbaráttunnar, og honum í blóð borinn.

Sjómennska og veiðar urðu líka ævistarf hans og svo tómstundir eftir að starfsævi lauk. Stangaveiði og allt sem henni við kom átti hug hans allan á efri árum, þannig stundað hann veiðar af kappi á sumrin og fluguhnýtingar á veturna allt fram yfir nírætt, svo mikill var hugurinn, þótt heilsan væri farin að gefa sig síðari árin.

Aldrei kunni Hörður betur við sig en með veiðistöng í hönd við friðsælt fjallavatn á fallegum sumardegi og ég trúi því að hann sé nú kominn á veiðilendur eilífðarlandsins, sáttur og sæll. Blessuð sé minning hans.

Sigurður Þór Salvarsson.

Í dag fylgjum við Herði okkar, Herði hennar mömmu, Herði kærasta til hinstu hvílu. Hörður kom inn í líf okkar fyrir tæpum 19 árum þegar mamma Gunnhildur kynnti hann hróðug fyrir okkur.

Hún sjötug og hann 78 ára bæði nýflutt inn á Jökulgrunn Hrafnistu í Reykjavík. Samband þeirra var einstakt, kærleikur og vináttan skein ætíð úr augum þeirra og saman leiddust þau allt sem þau fóru. Og þau fóru sko víða, til Kúbu, Spánar, Kanarí, um landið þvert og endilangt.

Flest sumur fóru í veiðiferðir því Hörður var mikill áhugamaður um veiði og heilu dagana sat Gunnhildur á sólstól, prjónaði og horfði á Hörð sinn veiða. Og alla daga sem viðraði fóru þau út í bíltúr og göngutúr og áttu sína uppáhaldsstaði. Grasagarðurinn í Laugardal var þeirra staður og auðvitað nefndi Gunnhildur fallegasta tréð í garðinum Hörð.

Skarfaklettur og Grótta voru tíðir áfangastaðir og brauð haft með í för til að fóðra svanga fugla.

Saman áttu Hörður og Gunnhildur 15 ár, en það var mikið tekið frá Herði þegar Gunnhildur féll frá fyrir rúmum þremur árum.

En Hörður var áfram duglegur að halda rútínu, hélt áfram að heimsækja staðina „þeirra“ á bílnum sínum meðan hann hafði bílpróf en á rafskutlunni góðu síðasta árið. Hörður var áfram hluti af okkar lífi þegar hann var orðinn einn, heimsóknir á báða vegu, ferðir vestur í Dali, og auðvitað heimsóttum við leiði Gunnhildar saman. Hörður valdi blómin á leiðið og fagurfífill varð fyrir valinu.

Nú kveðjum við Hörð, okkar mæta mann og sjáum í huga okkar Gunnhildi taka á móti honum á stjörnunni sinni, með nýlagað kaffi með flóaðri mjólk og nýbökuðum hollustupönnslum.

Við sendum hugheilar samúðarkveðjur til barna Harðar, Steinunnar, Guðrúnar Öldu, Einars og fjölskyldna þeirra.

Saknaðarkveðja,

Sigrún og Gunnbjörn (Gunni).