Leikstjórinn Egill Heiðar.
Leikstjórinn Egill Heiðar. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Blå åker eða Blái akurinn nefnist nýtt leikverk í leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar sem frumsýnt verður í Hálogaland-leikhúsinu í Tromsø í Noregi í dag.

Blå åker eða Blái akurinn nefnist nýtt leikverk í leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar sem frumsýnt verður í Hálogaland-leikhúsinu í Tromsø í Noregi í dag. „Verkið tekur á kvótamálum, fiskveiðióstjórn og einkavæðingu stærstu náttúrauðlindar Norðmanna, nefnileg fisksins. Árið 1989 hafði norski flotinn ofveitt í sinni lögsögu. Aflabrestur varð verulegur og sett var á fiskiveiðibann fyrir ofan 62. breiddargráðu. Komið var á kvótakerfi til að vernda stofninn. Af 9.000 fiskveiðiskipum fengu 3.500 þorskveiðikvóta, ókeypis og að eilífu. Síðan þá hefur kvótinn færst yfir á hendur fjárhagslega sterkra leikmanna og strandveiðimenn Norður-Noregs hafa tapað fiskveiðiréttindum sinum, lífsviðurværi og sjálfsvirðingu,“ segir í tilkynningu frá leikhúsinu.

Þar kemur fram að norska ríkið hafi brugðið sér í hlutverk Hróa hattar, en í stað þess að taka frá hinum ríku og gefa þeim fátækari hafi sú leið verið farin að taka frá samfélaginu og gefa fáum útvöldum gæði.

„Frá og með 1. janúar 2018 tóku Færeyingar málin í eigin hendur. Allur kvóti hefur verið innkallaður og ríkið leigir nú út kvóta til átta ára. Greiðslur færast í fjárfestingarsjóð sem þjóðin á. Hvaða leið vilja Norðmenn fara, þá íslensku eða þá færeysku? Þessarar spurningar spyr sýningin meðal annars.“ Verkið er samsköpunarverkefni Egils Heiðars og norska vísnasöngvarnas og þýðandans Ragnar Olsens, leikhópsins og tónlistarkonunnar Herborgar Rundberg.