Valdamaður Birgir fundaði með forsætisráðherra Úkraínu.
Valdamaður Birgir fundaði með forsætisráðherra Úkraínu.
„Hann lagði áherslu á að viðskiptabanninu yrði viðhaldið en viðurkenndi óbeint að það væri ekki nógu árangursríkt og þyrfti frekar að huga að öðrum aðferðum þótt hann færi ekki nánar út í það,“ segir Birgir Þórarinsson, þingmaður...

„Hann lagði áherslu á að viðskiptabanninu yrði viðhaldið en viðurkenndi óbeint að það væri ekki nógu árangursríkt og þyrfti frekar að huga að öðrum aðferðum þótt hann færi ekki nánar út í það,“ segir Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, en hann átti fund með Volodymyr Groysman, forsætisráðherra Úkraínu, í fyrradag og spurði hann þá út í viðskiptabann Vesturlanda gagnvart Rússlandi og vakti um leið athygli hans á því hversu mikil áhrif það hefði á sjávarútveg á Íslandi.

Birgir var í hópi fimmtán þingmanna frá ýmsum löndum sem boðið var á ráðstefnu samtaka gyðinga í Úkraínu um ofsóknir gegn minnihlutahópum í Evrópu, meðal annars gegn gyðingum, og friðar- og öryggismál í Mið-Austurlöndum. Utanríkisráðherra Úkraínu, aðstoðarforsætisráðherra og forseti alheimssamtaka gyðinga voru meðal þeirra sem ávörpuðu ráðstefnuna.

Að ráðstefnu lokinni fundaði hluti þingmannanna með Groysman, sem hefur verið forsætisráðherra frá árinu 2016 og er valdamesti maðurinn í stjórnkerfinu. Birgir segist hafa notað sinn tíma til að ræða viðskiptabannið og áhrif þess og vekja athygli á hversu mikil áhrif það hefði á sjávarútveg okkar litlu þjóðar. Hann segir að Groysman hafi sýnt því skilning en lagt á það áherslu að viðskiptabannið væri mikilvægt fyrir Úkraínumenn, skiljanlega, og jafnframt bent á mikilvægi þess að þjóðirnar stæðu saman að þessum aðgerðum gagnvart Rússum.

„Mér fannst gott að geta komið því á framfæri hvaða áhrif viðskiptabannið hefur á okkar efnahag, sennilega hlutfallslega mest af Evrópuþjóðum,“ segir Birgir.

helgi@mbl.is