Steingerður Sigurðardóttir fæddist 6. ágúst 1926. Hún lést 24. apríl 2019.

Útför Steingerðar fór fram 3. maí 2019.

Elsku Gerða frænka mín hefur kvatt þennan heim. Mér þótti afar vænt um hana og minnist hennar með mikilli hlýju og kærleika. Gerða hafði mikla persónu að geyma, góðhjörtuð, afburðagreind og orðheppin. Hún var fróðleiksfús, fylgdist með samtímanum af áhuga og innsæi.

Hún var ekki sú persónugerð sem tranaði sér fram en var hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi, skemmtileg og full af gleði og húmor.

Mikil og kærleiksrík vinátta var milli móður minnar og Gerðu og auðguðu þær án efa líf hvor annarrar með ógleymanlegum samverustundum í gegnum tíðina og jafnframt auðgaði það líf okkar systkina því hún var svo gefandi og jákvæð.

Hún var heiðarleg og trygg manneskja sem við fengum að upplifa svo oft enda mikilvægur hlekkur í stórfjölskyldunni okkar þar sem hún sáði gleði og góðvild og sýndi öllum áhuga.

Elsku Linda Sif, Svana, Íris, Gunnar og fjölskylda, einlægar samúðarkveðjur.

Sif Hauksdóttir, frænka.

Þegar við kveðjum Gerðu frænku okkar rifjast upp stór hluti eigin lífssögu. Við minnumst elskulegrar frænku og gleðjumst yfir fjölmörgum góðum minningum um hana, einkum frá Mosfelli og af Hlíðarveginum í Kópavogi. Upp í hugann koma mannfundir og ættarmót þar sem við sitjum með Gerðu yfir kaffi og bakkelsi, þessar liðnu stundir voru kryddaðar skemmtilegum samræðum og íhugulum athugasemdum hennar.

Gerða var okkur afar kær, ávallt til staðar með sína geislandi léttu lund. Glettni hennar var alltaf græskulaus og hún hafði gott skopskyn, ekki síst fyrir sjálfri sér. Frænka okkar var einstaklega snyrtileg og hafði lag á að gera allt fallegt í kringum sig. Ekki var slegið af kröfunum þótt einungis væri um að ræða stuttan göngutúr úti í náttúrunni. Hún átti það til að ganga um æskuslóðir sínar í Straumi, létt í spori og glæsileg í fasi með hatt á höfði þegar aðrir létu sér nægja buff eða prjónahúfu.

Á efri árum fór Gerða flestra sinna ferða fótgangandi, eftir að hún hætti að aka bíl. Þá rölti hún í ræktina, komin vel á níræðisaldur. Gerða ræktaði jafnt líkama og sál og sinnti vel ættingjum sínum og vinum. Afkomendur hennar fengu sinn skerf, dæturnar Svana og Linda Sif og þeirra börn og einnig börn eiginmanns hennar, Sigurðar Más Péturssonar, sem Gerða var svo lánsöm að kynnast. Öllum var sinnt af sömu mildinni og gæskunni en nánasta fjölskylda nægði henni ekki. Hún prjónaði einnig af miklu kappi peysur fyrir Rauða krossinn svo börnunum í gömlu Sovétríkjunum yrði ekki kalt í vetrarhörkunum þar eystra.

Við þökkum fyrir að hafa átt Gerðu sem frænku og fyrirmynd með sitt hreina hjarta og umhyggju fyrir öllu lífi.

Sif Bjarnadóttir,

Ýr Þórðardóttir,

Bjarki Bjarnason.

Nú hefur hún Gerða föðursystir mín kvatt okkur og haldið yfir í sumarlandið. Það verður tómlegra hérna megin en margar góðar minningar lifa og auðga líf okkar sem nutum þess að eiga hana að. Hún var sannkölluð sumarstelpa, fædd 6. ágúst 1926, mikill gleðigjafi í vöskum hópi bræðra sem þótti undurvænt um systur sína.

Gerða var snemma ein af þessum sjálfstæðu konum og var á ýmsan hátt á undan sinni samtíð og hafði einhvern veginn allt til að bera. Man að hún keyrði um á bíl þegar aðrir áttu ekki bíl, var alltaf með svo mikla röð og reglu á öllum hlutum, starfaði við fjármál og svo stundaði hún líkamsræktina nánast til dauðadags. Samt var hún Gerða hógværðin uppmáluð, ávallt nægjusöm, glöð, sjálfri sér nóg og státaði aldrei af nokkrum hlut.

Ég leit ávallt upp til Gerðu og dáðist að þessari greindu, flottu frænku minni sem ég var svo lánsöm að vera skírð í höfuðið á. Hún var ávallt glæsileg og vel tilhöfð, klæddist fínustu kápum og var hárið ávallt fallega greitt. Gerða mín var svo vel af guði gerð að öllum í stórfjölskyldunni þótti ofurvænt um þessa elskulegu frænku.

Hún var í áratugi gjaldkeri hjá Vikunni, síðar Dagblaðinu Vísi. Þar sá hún um launagreiðslur allra starfsmanna félagsins ásamt fleiru fjármálatengdu. Þar var örugglega enginn losarabragur á neinu hjá Gerðu minni sem vandaði öll sín verk, með allt í röð og reglu eins og henni einni var lagið.

Þegar Gerða var á fertugsaldri kynntist hún Sigurði Má Péturssyni, giftist honum og áttu þau svo ótal margar góðar stundir saman. Hún var mjög hagmælt og samdi gjarnan texta við lögin hans Sigga sem var mikill tónlistarmaður sem söng og spilaði snilldarlega á píanó og harmonikku af náttúrunnar hendi.

Gerða bar ávallt aldurinn vel og hélt hún upp á 90 ára afmælið sitt með glæsibrag í Petersen-svítunni fyrir tæpum þremur árum. Þar var hún umvafin sínu fólki og góðum vinum.

Það lifnar yfir Sumarlandinu þegar Gerða mín mætir á svæðið og bræður hennar og elsku Siggi taka henni opnum örmum.

Sofðu, hvíldu sætt og rótt,

sumarblóm og vor þig dreymi!

Gefi þér nú góða nótt

guð, sem meiri' er öllu' í heimi.

(G. Guðm.)

Dætrum hennar, Svönu og Lindu Sif, og fjölskyldum þeirra færi ég innlegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Gerðu frænku

Steingerður Þorgilsdóttir.