Njáll Trausti Friðbertsson
Njáll Trausti Friðbertsson
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Nefndafundir varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins eru haldnir í Reykjavík þessa dagana. Þeir hófust í gær og standa fram á föstudag.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Nefndafundir varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins eru haldnir í Reykjavík þessa dagana.

Þeir hófust í gær og standa fram á föstudag.

Njáll Trausti Friðbertsson, formaður Íslandsdeildar NATO og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir fundina aðallega snúa að því að kynna þingmönnum NATO-þingsins Ísland, starfsemi NATO hérlendis og sögu NATO á Íslandi.

„Þingmennirnir hitta m.a. íslenska þingmenn á meðan þau dvelja hérna, forseta Íslands, utanríkisráðherra og fulltrúa Landhelgisgæslunnar.

Það er ánægjulegt og mikilvægt að fá tækifæri til að kynna þær aðstæður sem er hér að finna á Íslandi og á hafsvæðunum í kringum landið og þær veðurfarslegu krefjandi aðstæður sem hér eru til staðar. Auðvitað er einnig horft til mikilvægis landfræðilegrar stöðu Íslands í miðju Norður-Atlantshafinu mitt á milli Evrópu og Norður-Ameríku,“ segir Njáll.

Formaður NATO á landinu

35 manns eru á landinu í tengslum við fundina, þar af 22 þingmenn frá 10 löndum. Í hópnum er formaður NATO-þingsins, breski þingmaðurinn Madeleine Moon.

„Síðan er líka vert að nefna að James Gray er í hópnum en hann er breskur þingmaður sem verður með fyrirlestur hjá Varðbergi í hádeginu á morgun [í dag],“ segir Njáll en Gray er sérstaklega þekktur í heimalandi sínu sem stuðningsmaður Brexit og hefur gefið út tvær bækur um efnið.

Aðspurður segir Njáll að nefndarfundirnir séu mikilvægur þáttur í að efla alþjóðasamstarf Íslands.

„Ég held að það hjálpi alltaf að fá tækifæri til að kynna hluti á Íslandi í stærra samhengi.“

Ásamt Njáli taka tveir aðrir þingmenn þátt í nefndafundunum, þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sem jafnframt á sæti í umræddri varnar- og öryggismálanefnd NATO, og Willium Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.