Þorvaldur Kristinn Friðriksson Hafberg fæddist 19. júlí 1932. Hann lést 30. mars 2019.

Útförin fór fram 16. apríl 2019.

Ég mun aldrei gleyma þessum aukasekúndum hvert skipti sem ég faðmaði þig, elsku afi. Þegar ég hugsa til baka gerðir þú mikið til þess að sýna okkur hinum ómetanlega óskuldbundna ást. En þú gerðir það á lúmskan hátt og ég sé það betur með hverjum deginum eftir að þú hvarfst inn í draumalandið hversu fallegt hjarta þú hafðir að geyma.

Afi Valdi kenndi mér margt nytsamlegt þessi ár sem við áttum saman. Það mætti segja að hann hafi skipað sérstakan sess í lífi mínu sem barn. Hann var alltaf tilbúinn að bardúsa með okkur barnabörnunum og sýndi okkur mikla þolinmæði og umhyggju. Okkur Söru frænku þótti yndislegt að eyða helgunum hjá afa og ömmu. Þá var öllu tjaldað til að gera hvern dag ævintýralegan, bæði á Hjarðarhaganum og seinna á Stokkseyri.

Afi Valdi átti gulu trilluna Pysju sem var staðsett við gömlu höfnina. Oftar en ekki bauð hann mér, Söru og Ísaki með sér að veiða og voru túrarnir hver öðrum ævintýralegri. Besta minningin um afa er þegar amma Nonný kom með okkur tveimur einn sólríkan dag í veiðitúr á gulu trillunni. Þau voru eitthvað svo krúttleg þennan daginn. Afi var alltaf að kyssa ömmu, þau voru að hlusta á gömlu rómantísku lögin og dansa.

Það verðmætasta sem afi Valdi kenndi mér var að taka lífið ekki of alvarlega og að mikilvægast væri að elta drauma sína. Við lágum saman á túnsléttu eftir reiðtúr á Stokkseyri einn sólríkan sumardag. Við lágum hlið við hlið í grasinu þar sem hann sagði mér að grafa fingurna alla leið ofan í moldina, loka augunum og anda inn fersku lofti í dágóðan tíma – þessi upplifun fylgir mér og afi Valdi hefur fundið á sér að ég þyrfti að læra að jarðtengja mig.

Ég á endalausar yndislegar minningar um þig, afi, og fyrir það verð ég ætíð þakklát.

Nú ertu loksins kominn í draumalandið með elskunni þinni og Snúllu.

Þórhildur Kristjánsdóttir.