Halldór Jóhann Guðmundsson fæddist 30. desember 1938 í Reykjavík. Hann lést 1. maí 2019 á deild 2B á Borgarspítalanum.

Foreldrar hans voru Guðmundur Halldórsson, f. 9. águst 1900, d. 13. febrúar 1986, verslunarstjóri hjá ÁTVR, og Ágústa Jóhannsdóttir húsmóðir, f. 16. ágúst 1895, d. 20. febrúar 1981. Systir Halldórs heitir Alda Guðfinna, f. 2. júlí 1938.

Halldór kynntist konu sinni Láru Margréti Gísladóttir, f. 7. mars 1942, árið 1959 og þau giftust 1. apríl 1961. Þau eignuðust fimm börn:

1) Guðmundur Ólafur, f. 14. júní 1961, kona hans er Irena Galaszewska, 2) Guðlaug Ágústa, f. 4. febrúar 1963, hún á þrjá syni, Mána, Mími og Móses. 3) Þórarinn Sturla, f. 18. okóber 1965, kvæntur Fatmatu Bintu Cole, dóttir þeirra er Alda Latifa Cole. Fyrir á Þórarinn þrjú börn, Soffíu Láru og synina Þórarin Mikael og Snævar Gabríel. 3) Halldór Andri, f. 3. ágúst 1967, kvæntur Helgu Margréti Reykdal. Fyrir á Halldór Andri börnin Andra Jóhann, Kristófer (fæddist andvana), Töru Ösp, Viktor Alexander og Aron Jóhann. 5) Gísli Ágúst, f. 19. apríl 1975. Barnabarnabörnin eru fjögur.

Halldór vann lengst af í Landsbankanum. Hann var einn af stofnendum Fornbílaklúbbsins.

Útför hans fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 9. maí 2019, klukkan 13.

Pabbi minn var myndarlegur og duglegur maður en fámáll og feiminn. Hann var alltaf til staðar fyrir okkur systkinin þegar við þurftum ráð í fjármálum og ýmsum öðrum lífsins málum.

Pabbi og mamma voru samstiga hjón og hamingjusöm með hvort annað og eyddu öllum sumrum í garðverkum og viðhaldi á húsinu sínu sem alltaf var snyrtilegt og til fyrirmyndar.

Pabbi hafði mikla bíladellu og elskaði bíla og gamlir voru í uppáhaldi. Hann safnaði mynt, frímerkjum, vasaúrum, herdóti og ýmsu öðru sem honum þótti varið í. Hann eyddi mörgum árum í frístundum við að skrifa ættartölu um Ámundaættina...enda hafði hann mikinn áhuga á ættfræði.

Á hverju sumri var farið í tjaldútilegu í sumarfríinu og varla til sá staður á landinu sem ekki var heimsóttur í þessum túrum. Þau voru mikið með Dagnýju systur mömmu og Ragnari og oft var kátt á hjalla hjá okkur í þeim félagsskap í Vatnsholti og víðar.

Pabbi og mamma ferðuðust einnig til útlanda, þar af margar ferðir með mér og minni fjölskyldu og alltaf var gaman hjá okkur.

Síðastliðið sumar fórum við systkinin með pabba og mömmu til Dublinar í tilefni af áttræðisafmæli pabba og það var góð og skemmtileg ferð þar sem Alda systir hans var einnig og við héldum upp á afmæli þeirra.

Pabbi hafði góðan smekk á fötum og var vandlátur, oft fékk ég að nota af honum föt sem hann var hættur að nota og eins af afa mínum. Pabbi ólst upp á góðu heimili við gott atlæti og foreldrar hans ferðuðust víða um heim og klæddu fjölskylduna upp. Auk þess var Alda systir hans, flugfreyja hjá PanAm og búsett í Bandaríkjunum, dugleg að færa okkur framandi fatnað og hluti er hún heimsótti okkur.

Pabbi og mamma voru bindindisfólk, lifðu heilbrigðu lífi, þau fóru í klukkutíma göngu hvern dag eftir að þau hættu að vinna og eyddu miklum tíma í samveru hvort annars og mikill kærleikur var með þeim.

Hann hafði áhuga á íþróttum, kom mér í frjálsar íþróttir og þjálfaði mig í langstökki og kúluvarpi heima en sá ferill minn entist stutt, ég held að ég hafi bara gert þetta fyrir pabba þar sem enginn bræðra minn stundaði íþróttir.

Pabbi fékk blóðtappa 14. feb. sl. og lungnabólgu ásamt hjartastoppi næstu tvo daga. Hann var sex vikur á gjörgæslu, síðan á taugadeild og barðist fyrir lífi sínu og ég horfði á hann með aðdáun yfir hversu miklum styrk hann bjó yfir og ekki kvartaði hann í eitt skipti, bar þjáningu sína í hljóði.

Pabbi hafði góðan húmor og var stríðinn. Hann var alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd en reyndi aldrei að stjórna öðrum og aldrei heyrði ég hann hallmæla nokkrum manni sem mér finnst virðingarvert.

Ég kveð föður minn með söknuði í hjarta, ég mun sakna hans, lífið verður ekki samt án pabba en ég held í góðu minningarnar og mér er létt að hann þurfi ekki að þjást lengur.

Ég bið almættið að styrkja móður mína í sorg hennar og söknuði.

Guðlaug Ágústa

Halldórsdóttir.

Þær töluðu saman daglega, Dagný eiginkonan mín heitin og Lára systir hennar. Stundum oftar. Þær voru bestu vinkonur í heimi, allt frá barnæsku. Um eitt og hálft ár skildi þær að í aldri og var Lára eldri. Vinátta þeirra var göfug og falleg. Aldrei varð þeim sundurorða.

Lára giftist ung, Halldóri J. Guðmundssyni, bankamanni í Landsbanka Íslands, sem hér er minnst. Þau eignuðust fimm börn; fjóra drengi og eina stúlku.

Það hefði verið hægt að trúa Halldóri fyrir hverju sem er, því ekki talaði hann af sér! Ég get alveg viðurkennt að það olli mér nokkrum vanda fyrstu árin að halda uppi viðræðum við Halldór. Ekki þýddi að tala við hann um hesta. Svo varð mér ljóst að með því að tala um gamla bíla opnuðust allar flóðgáttir.

Við hjónin áttum athvarf í Búlgaríu, við Svartahafið. Þangað fóru Lára og Halldór nokkrum sinnum með okkur. Það voru yndislegir dagar. Ekki síst þótti okkur Nessebar spennandi strandbær, með gömlum fallegum húsum, óteljandi verslunum og veitingastöðum. Þar var Halldór fljótur að finna allar antíkverslanir á svæðinu. Hann virtist hafa innbyggðan radar. Var auk þess fljótur að læra nokkur lykilorð í búlgörsku, eins og „nemalenja“ – („afsláttur“)!

Oft hringdi hann í son sinn og ræddi hvað væri klókast að kaupa. Þar var um margt að ræða, sjaldgæfa mynt frá því á fyrri hluta tuttugustu aldar, alls konar stríðsviðurkenningar og medalíur. Stundum held ég að Láru hafi nú fundist Halldór eiga nóg af úrum þó að ekki bættist eitt bilað úrið enn í safnið.

Ég minnist liðinna stunda með þeim Láru og Halldóri með mikilli ánægju. Þau voru góðir félagar, heima og erlendis.

Ég votta Láru og börnum þeirra einlæga samúð mína.

Ragnar Tómasson.