Vetrarmýri Fjölnota húsið rís á hluta þess svæðis þar sem nú er æfingasvæði Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.
Vetrarmýri Fjölnota húsið rís á hluta þess svæðis þar sem nú er æfingasvæði Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. — Tölvumynd/ASK arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Heildarkostnaður við byggingu fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða í Garðabæ er áætlaður um 4,3 milljarðar og á þessu ári er gert ráð fyrir að verja 620 milljónum króna til verksins.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Heildarkostnaður við byggingu fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða í Garðabæ er áætlaður um 4,3 milljarðar og á þessu ári er gert ráð fyrir að verja 620 milljónum króna til verksins. Fyrsta skóflustunga að húsinu var tekin sl. föstudag og gert er ráð fyrir að verklok verði í apríl 2021.

Margvísleg nýting

Í lok síðasta árs var undirritaður verksamningur milli Garðabæjar og Íslenskra aðalverktaka um hönnun og byggingu hússins, en tilboð Íslenskra aðalverktaka skoraði hæst með tilliti til gæða og verðs að því er þá kom fram í frétt frá bæjarfélaginu. Hönnun hófst síðan í byrjun þessa árs og gert er ráð fyrir að verklok verði í apríl 2021.

Fjölnota íþróttahúsið verður með rými fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð auk upphitunaraðstöðu ásamt tilheyrandi stoðrýmum. Í húsinu verður lyftingasalur, svalir í kringum allan fótboltavöllinn sem hægt er að nýta sem hlaupa- og/eða göngubraut. Auk þess er gert ráð fyrir rými fyrir klifurvegg.

Önnur rými eru einnig á 2. og 3. hæð viðbyggingar hússins sem á eftir að ráðstafa. Stærð íþróttasalarins verður um 80x120 m, með anddyri og öðrum stoðrýmum er flatarmál hússins um 18.200 fermetrar.

Markmið deiliskipulags lóðarinnar er að skapa umgjörð um raunhæfa og framsýna lausn á íþróttasvæði í góðum tengslum við byggð og samgöngur, segir á heimasíðu Garðabæjar.

Nýtt af yngri og eldri íbúum

Við athöfn er skóflustunga var tekin að byggingu hússins bauð Gunnar Einarsson bæjarstjóri gesti velkomna og þakkaði þeim sem hafa komið að undirbúningi málsins. Hann sagði jafnframt frá því hvernig hann vonaðist til að íþróttahúsið yrði nýtt í framtíðinni af yngri sem eldri íbúum Garðabæjar. Hann sagði að tilkoma hússins myndi hafa mikil áhrif til eflingar líkams- og heilsuræktar í Garðabæ.

,,Árið 1910 reis Vífilsstaðaspítali, sem þá var eitt glæsilegasta og stærsta hús á Íslandi, og markaði nýja tíma í heilbrigðismálum Íslendinga. Með sama hætti vil ég horfa á nýja fjölnota íþróttahúsið að það marki nýja tíma í íþrótta-, líkams- og heilsurækt okkar Garðbæinga,“ sagði Gunnar.

Börnin í heiðurshlutverki

Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar, ávarpaði einnig viðstadda. Barnakór leikskólans Hæðarbóls flutti nokkur vorlög við athöfnina og börnin fengu svo það heiðurshlutverk að taka skóflustungu að nýja íþróttahúsinu. Þeim til aðstoðar voru bæjarfulltrúar Garðabæjar og fulltrúar félaga eldri borgara í Garðabæ og Álftanesi.