[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Eyjum Guðmundur T. Sigfússon sport@mbl.is Eyjamenn jöfnuðu metin í einvígi sínu gegn Haukum í gærkvöldi þegar liðin mættust í fjórða sinn í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik.

Í Eyjum

Guðmundur T. Sigfússon

sport@mbl.is

Eyjamenn jöfnuðu metin í einvígi sínu gegn Haukum í gærkvöldi þegar liðin mættust í fjórða sinn í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik. Liðin fara nú í oddaleik um sæti í úrslitarimmunni næsta laugardag á Ásvöllum og sigurvegarinn þar mætir Selfossi. Leiknum í gær lauk 30:27 og voru Eyjamenn í raun með sigurinn vísan mestallan leikinn.

Eyjamenn hófu leikinn mjög vel og höfðu forskot frá upphafi en þeir leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 15:11.

Umskipti í síðari hálfleik

Það forskot var fljótt að gufa upp í seinni hálfleik þar sem Haukarnir hófu hann af miklum krafti, höfðu greinilega farið vel yfir hlutina í hálfleik.

Haukar náðu aldrei forystunni á nýjan leik og hefði það líklega verið það sem þeir þurftu. Ef Eyjamenn hefðu lent undir hefðum við getað séð brotið lið.

Sigurbergur Sveinsson, Kristján Örn Kristjánsson og Dagur Arnarsson skoruðu allir sex mörk í leiknum og léku vel. Hjá Haukunum var Orri Freyr Þorkelsson markahæstur með fimm mörk, öll úr vítum. Markverðir liðanna hafa allir átt betri leiki en samtals voru 18 skot varin í leiknum, níu hjá hvoru liði.

Haukar sterkir á Ásvöllum

Haukar hafa unnið báða heimaleikina sína gegn ÍBV í þessari rimmu nokkuð þægilega en Eyjamenn að því er virðist þurft að hafa meira fyrir sínum sigrum, sem báðir komu þó á þeirra heimavelli. Helsti munurinn á þessum leik og þeim fyrri var sá að Eyjamenn náðu að stoppa gríðarlega öfluga seinni bylgju Hauka og fækka mörkum þeirra úr henni.

Stuðningurinn í Vestmannaeyjum var eins og best verður á kosið; Eyjamenn fylltu húsið og frábærir stuðningsmenn Hauka fjölmenntu einnig til Eyja. Það verður gaman að sjá hvort það sama verður upp á teningnum í næsta leik liðanna. Ekki kæmi það á óvart þegar sæti í úrslitum Íslandsmótsins er í húfi.

Eins og áður segir hafa allir fjórir leikirnir unnist á heimavelli. Haukar komust yfir 1:0 og 2:1 en ÍBV hefur tvívegis jafnað.

ÍBV – Haukar 30:27

Vestmannaeyjar, undanúrslit karla, fjórði leikur, miðvikudag 8. maí 2019.

Gangur leiksins : 3:2, 6:4, 8:5, 10:8, 13:10, 15:11 , 15:14, 17:17, 21:19, 24:23, 27:24, 30:27 .

Mörk ÍBV : Kristján Örn Kristjánsson 6, Dagur Arnarsson 6, Sigurbergur Sveinsson 6, Hákon Daði Styrmisson 4/2, Gabríel Martinez 3, Fannar Þór Friðgeirss. 3, Elliði Snær Viðarss. 2.

Varin skot : Björn Viðar Björnsson 5, Haukur Jónsson 4.

Utan vallar : 6 mínútur

Mörk Hauka : Orri Freyr Þorkelsson 5/5, Adam Haukur Baumruk 4, Daníel Þór Ingason 4, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4, Heimir Óli Heimisson 3, Tjörvi Þorgeirsson 2, Ásgeir Örn Hallgrímsson 2, Atli Már Báruson 1, Jón Þorbjörn Jóhannsson 1, Einar Pétur Pétursson 1.

Varin skot : Grétar Ari Guðjónsson 8, Andri Sigmarsson Scheving 1/1.

Utan vallar : 2 mínútur

Dómarar : Jónas Elíasson og Svavar Ólafur Pétursson. Áhorfendur : 900.

*Staðan í einvíginu er jöfn, 2:2, og liðin mætast í oddaleik á laugardag.