Þjálfarinn Ingi Þór Steinþórsson leggur línurnar í leikhléi.
Þjálfarinn Ingi Þór Steinþórsson leggur línurnar í leikhléi. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KR Kristján Jónsson kris@mbl.is Ýmislegt sögulegt hefur gerst að undanförnu þegar vetraríþróttirnar hafa náð hámarki. Kvennalið Vals unnu alla stóru bikarana bæði í handknattleik og körfuknattleik á sama tímabilinu.

KR

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ýmislegt sögulegt hefur gerst að undanförnu þegar vetraríþróttirnar hafa náð hámarki. Kvennalið Vals unnu alla stóru bikarana bæði í handknattleik og körfuknattleik á sama tímabilinu. KA vann alla stóru bikarana í blakinu bæði í karla- og kvennaflokki. Skautafélag Akureyrar vann hvern einasta bikar sem keppt er um í íshokkíi. Ekki fór framhjá mörgum að KR varð Íslandsmeistari karla í körfuknattleik sjötta árið í röð. Margir töldu að slíkt væri ekki gerlegt í hópíþróttum nútímans þegar fleiri félög hérlendis leggja metnað í að ná árangri en gerðu ef farið er aftur í tímann.

KR setti met í körfuboltanum á Íslandi þegar liðið náði sjötta titlinum í röð. Karlalið ÍR sigraði tvívegis fimm sinnum í röð. Fyrst frá 1960-1964 og síðan frá 1969-1973. Kvennalið KR vann fimm sinnum í röð frá 1979-1983.

KR-ingar eru þó ekki búnir að setja met í íslensku íþróttalífi hvað þetta varðar en eiga möguleika á því. Karlalið Fram varð Íslandsmeistari í knattspyrnu sex sinnum í röð 1913-1918. Kvennalið Vals í handknattleik varð Íslandsmeistari sex ár í röð 1964-1969 en kvennalið Fram vann einnig sex sinnum gerði gott betur í handknattleiknum og sigraði sjö sinnum í röð 1984-1990. Er það sem sagt metið sem KR-inga að reyna að jafna á næsta keppnistímabili.

Sóttur í Stykkishólm

Þegar Finnur Freyr Stefánsson lét af störfum síðasta sumar sem þjálfari KR var kallað í annan uppalinn KR-ing, Inga Þór Steinþórsson, sem búið hafði í Stykkishólmi frá sumrinu 2009. Ingi hafði gert karlalið KR að meisturum árið 2000 og karlalið Snæfells vann tvöfalt undir hans stjórn 2010. Þá varð kvennalið Snæfells Íslandsmeistari þrjú ár í röð undir hans stjórn 2014-2016.

Ingi þurfti því ekkert að sanna sem þjálfari en margir töldu að erfitt yrði fyrir hann að koma vel út úr þessu keppnistímabili. KR-liðið hafði unnið fimm ár í röð og molnaði í sundur þegar Brynjar Þór Björnsson, Darri Hilmarsson og Kristófer Acox yfirgáfu félagið. Var það rakið í grein í mánudagsblaðinu hvernig KR-liðið tók svo breytingum í vetur og varð sterkara.

Nýta þarf kóngana rétt

Inga tókst að finna réttu formúluna og búa til meistaralið, nánast á síðustu stundu eða þegar úrslitakeppnin fór í hönd. Fram að því höfðu lið eins og Stjarnan og Njarðvík þótt sigurstranglegri en KR. Ingi Þór var með í sínum leikmannahópi afar reynda og sigursæla menn. Slíkt getur verið vandmeðfarið en hann virðist hafa unnið mjög farsællega úr því. Þjálfarinn þarf að leyfa slíkum mönnum að koma að borðinu og setja fram sínar hugmyndir. Í hita leiksins er einnig hægt að nýta innsæi þeirra og leikskilning til að meta stöðuna. En um leið þarf að vera ljóst að þjálfarinn stjórnar en ekki leikmennirnir. Hans er ábyrgðin og hann tekur endanlega ákvörðun.

Stundum verður maður var við umræðu um sigursæl lið í íþróttum að þau séu nánast sjálfspilandi og litlu skipti hver þjálfi þau. Greinarhöfundur hefur ekki mikla trú á þeirri kenningu. Lið verða ekki meistarar þegar leikmenn ráða för. Til þess er sjónarhorn þeirra of þröngt. Inn í þeirra sýn spilar þeirra eigin hlutverk of mikla rullu til að þeir sjái heildarmyndina jafn skýrt og sá sem er á hliðarlínunni.

Tenging við baklandið

Afrek Inga er því merkilegt; að hafa náð að stýra flaggskipi KR í höfn með þeirri pressu sem því fylgir. Eins var afrek forvera hans Finns Freys Stefánssonar geysilegt. Til marks um pressuna sem fylgir því að stýra meistaraliði KR þá var Finnur nánast búinn á sál og líkama þegar mótinu lauk fyrir ári.

Síðustu árin hefur KR gjarnan þótt sigurstranglegasta liðið. Ekki síst eftir að Jón Arnór Stefánsson ákvað að flytja heim. En þannig hefur það ekki endilega verið öll þessi sex tímabil. Þegar maður hugsar til baka þá var meistaralið KR 2014 til dæmis ekki samansafn af stórstjörnum á þeim tíma. En leikmenn eins og Martin Hermannsson og Darri Hilmarsson sönnuðu sig sem toppmenn þann veturinn.

Öll sex tímabilin hafa þó margir af lykilmönnum liðsins verið uppaldir KR-ingar. Tengingin við baklandið er því fyrir hendi og það sést á stemningunni í úrslitaleikjum.