Ál Álver á Íslandi eru knúin með endurnýjanlegri orku ólíkt því sem gerist í Kína þar sem kol eru að mestu notuð.
Ál Álver á Íslandi eru knúin með endurnýjanlegri orku ólíkt því sem gerist í Kína þar sem kol eru að mestu notuð. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Pétur Hreinsson peturh@mbl.is Hálf öld er liðin frá því að álframleiðsla hófst á Íslandi.

Baksvið

Pétur Hreinsson

peturh@mbl.is

Hálf öld er liðin frá því að álframleiðsla hófst á Íslandi. Af því tilefni verður rýnt í sögu álframleiðslu hér á landi á ársfundi Samáls, Samtaka álframleiðenda á Íslandi, sem haldinn verður í Hörpu í dag en einnig horft til framtíðar þar sem umhverfis- og öryggismál verða í brennidepli. Í samtali við Morgunblaðið segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, framlag áliðnaðarins til íslensks hagkerfis gríðarlegt.

140 milljarðar í laun á 10 árum

„Í samantekt sem Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, teflir fram á ársfundinum kemur m.a. fram að útflutningur á iðnaðarvörum hefur vaxið úr 11 milljörðum í 321 milljarð á föstu verðlagi, sem er aukning upp á hvorki meira né minna en 2.660% og munar þar mest um álið,“ segir Pétur. Nefnir hann í þessu samhengi að með óbeinu framlagi hafi heildarframlag áliðnaðar til innlendrar verðmætasköpunar numið 1.150 milljörðum á þeirri hálfu öld sem liðin er frá því að álframleiðsla hófst. Munar þar mest um framlagið síðasta áratuginn eða frá því að Fjarðaál hóf starfsemi árið 2008.

Sé horft til launakostnaðar kemur í ljós að 140 milljarðar hafi fallið í hlut starfsmanna í áliðnaði á tímabilinu 2008 til 2017. Sú upphæð tvöfaldast aftur á móti ef miðað er við upphafspunkt árið 1973. „Ástæðan er sú að áliðnaðurinn var auðvitað mun smærri í sniðum fyrstu áratugina. Það er gaman að rifja upp auglýsingu sem birtist í tímariti árið 1969, þar sem lofað er 350 störfum við 33 þúsund tonna álver í Straumsvík. Í dag er framleiðslugetan komin yfir 200 þúsund tonn,“ segir Pétur.

Sláandi skýrsla

Hann segir sláandi að lesa í nýrri skýrslu OECD að álframleiðsla sé niðurgreidd af stjórnvöldum í helstu samkeppnislöndum Íslands í áliðnaði, m.a. í Kína, Mið-Austurlöndum og jafnvel Kanada. „Og ef við horfum til Noregs, þá greiða stjórnvöld niður það orkuverð sem uppgefið er til stóriðju, og þannig er það líka í Þýskalandi og Frakklandi,“ segir Pétur. Undirstrikar hann mikilvægi þess að stjórnvöld leggi raunsætt mat á samkeppnisstöðu íslensks orkuiðnaðar í ljósi þess að nú sé verið að vinna að mótun orkustefnu fyrir Ísland.

En staða íslensks áliðnaðar er sterk, sér í lagi þegar litið er til umhverfismála en Steinunn Dögg Steinsen, framkvæmdastjóri umhverfis- og öryggismála hjá Norðuráli, gerir þeim skil og nefnir að kolefnislosun álvera hafi dregist saman um 75% frá árinu 1990.

„Það gleymist oft að loftslagsmálin eru hnattræn í eðli sínu,“ segir Pétur. „Það gerir bara illt verra að draga úr losun á einum stað, ef það verður til þess eins að hún aukist á öðrum. Stærsta framlag álframleiðslu á Íslandi felst í að notuð er endurnýjanleg orka til að knýja framleiðsluna. Almennt er það nefnilega orkuvinnslan sem losar mest þegar ál er framleitt,“ segir Pétur og nefnir að álframleiðsla í Kína, sem framleiðir um helming af öllu áli í heiminum, sé að mestu knúin með kolum og kolefnislosunin sé þar um tífalt meiri.