„Þetta er ögrandi staða,“ sagði Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi, við mbl.is en ársreikningur sveitarfélagsins var ræddur á fundi bæjarstjórnar í gær.

„Þetta er ögrandi staða,“ sagði Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi, við mbl.is en ársreikningur sveitarfélagsins var ræddur á fundi bæjarstjórnar í gær. Þar kom fram að sveitarfélagið hefði verið rekið með 264 milljóna króna tapi á síðasta ári sem skýrist einkum af miklum framkvæmdum.

Karl Pétur sagði að bærinn stæði í miklum framkvæmdum, m.a. byggingu hjúkrunarheimilis og íþróttahúss, auk þess sem mikið af ungu barnafólki hefði verið að flytja í bæinn.

„Það er rétt að það er neikvæð niðurstaða í rekstrinum, einfaldlega vegna þess að bærinn stækkar mjög ört og margar barnafjölskyldur hafa flutt hingað. Við höfum ákveðið að halda úti sama þjónustustigi og verið hefur og fjölguðum um þrjár leikskóladeildir síðasta haust til þess að geta boðið öllum 14 mánaða börnum í maí 2019 inngöngu í leikskóla,“ sagði Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri.

„Þetta hefur allt verið upplýst í bæjarstjórninni og verið rætt í bæjarráði,“ sagði Ásgerður. Þannig væru allir upplýstir um það tap sem hefði orðið á síðasta ári og hvað hefði valdið því. hjortur@mbl.is