Það er vor í lofti og hagyrðingarnir í sólskinsskapi. Pétur Stefánsson orti á sunnudaginn á Leir: Nú er bjart og blíðuveður, blikar sól á vík og ál. Indælt vorið alla gleður, unað veitir hverri sál.

Það er vor í lofti og hagyrðingarnir í sólskinsskapi. Pétur Stefánsson orti á sunnudaginn á Leir:

Nú er bjart og blíðuveður,

blikar sól á vík og ál.

Indælt vorið alla gleður,

unað veitir hverri sál.

Spretta blóm og lauf í lautum,

losnar fólk úr vetrarþrautum.

Blessað vorið hlær í hlíðum,

hvammar skarta fögrum lit.

Völlur grær í vindi þýðum,

veröld baðar sólarglit.

Argur vetur er að baki,

ómar loft af fuglakvaki.

Í tímaritinu Helgafelli var þáttur sem kallaðist „Úr Vísnabókinni, þýtt og endursagt af Magnúsi Ásgeirssyni“. Hér eru sýnishorn. Fyrst er „Grafskrift yfir hundi“:

Ég var hundur húsbóndans á Rein.

Hver á þig, sem skoðar nú minn stein?

Úr gömlu bréfi:

Hvað sem annars er um mig,

engin líður stundin

svo, að ekki sé við þig

sérhver þanki bundinn.

Hitt mér leyndist langa tíð,

ljúfan dyggðaríka,

að þú hugsar ár og síð

um þig sjálfa líka.

Meydómsminning.

– Barnfóstran hét Hanna.

Hún bar mig upp í hlíð.

Þá kom til okkar piltur

og kyssti hana í gríð.

Og Hanna kyssti piltinn.

Ég hugsaði, ein á bala:

„Þetta segi ég mömmu,

þegar ég læri að tala!“

Landráð.

„Af landráðum vex ekki vegsemd!

„Hve verður það sannað?“

„Er landráðin hafa heppnast,

þá heita þau annað“.

Ármann Þorgrímsson er með „smá innlegg í umræðuna um þungunarrof

og hlýnun jarðar“ á Leir:

Veröld illa á vegi stödd og versnar færðin

Mesta vanda málið er

mennirnir að fjölga sér.

Ármann hefur líka sett fram „heimspekilegar hugleiðingar um tilgang lífsins“:

Tilganginn með tilgangsleysi tel ég vera

aðeins til að ergja sig

engu skiptir þetta mig.

Bólu-Hjálmar orti:

Lofsvert er að læsa kjaft

og lukku sléttur vegur,

Satan hefur segulkraft,

syndarann að sér dregur

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is