Gatnakerfið í borginni er í molum en borgarstjóri ræðir um hjólahraðbrautir

Samgöngur í Reykjavík eru í miklum ólestri og hafa verið um árabil. Þetta stafar einkum af því að borgaryfirvöld hafa brugðist við aukinni umferð með því að þrengja götur og hafna hugmyndum sem greitt gætu umferð.

Reynt er að vinna gegn því að almenningur fari ferða sinna á eigin bílum en ýtt undir það með öllum ráðum, meðal annars framlagi ríkisins sem ella færi í vegabætur í borginni, að auka notkun strætisvagna.

Árangurinn af þessu hefur ekki verið neinn. Hlutfall þeirra sem nýta strætó nú og þegar átakið mikla hófst er óbreytt. Það ber vott um jafnvel minni áhuga á almenningssamgöngum en mestu efasemdamenn gátu ætlað. Þrátt fyrir þetta ætla borgaryfirvöld að halda áfram á sömu braut, en gefa í og bæta við svokallaðri borgarlínu, sem er lítið annað en ofvaxið og rándýrt strætisvagnakerfi.

En þetta er ekki allt. Á sama tíma og borgaryfirvöld vanrækja gatnagerð setur borgarstjóri fram þá hugmynd að bæta hjólahraðbrautum við hjólastígakerfi borgarinnar.

Væri ekki nær að einbeita sér að því að koma umferðarmannvirkjum fyrir langsamlega algengasta ferðamátann í lag, áður en farið er að leggja hraðbrautir fyrir fámennan hóp ofurhjólreiðamanna?